Atvinnulíf

Nánast með doktorspróf í þrautseigju og þolinmæði

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Eydís Mary Jónsdóttir.
Eydís Mary Jónsdóttir. Vísir/Vilhelm

„Zeto er í raun fjölskyldufyrirtæki, stofnað af mér, móður minni, Fjólu Sigurðardóttur og móðurbróður, Steindóri Rúniberg Haraldssyni árið 2016. Það er Steindór sem hefur þróað þaraþykknið sem við notum í vörurnar okkar,“ segir Eydís Mary Jónsdóttir, einn stofnandi Zeto. Fyrirtækið er þessa dagana að kynna nýtt vatnslaust sjampó.

Um þessar mundir er ZETO að kynna sína fyrstu vöru á markað, vatnslaust sjampó. „Hugmyndin af púðursjampóinu sem var að koma á markað núna kom frekar seint í þessu ferli og það er í rauninni Covid að þakka að við veljum að koma fyrst út með þessa vöru. Við vorum ekki að sjá fram á að geta kynnt vörur fyrir fólki vegna Covid og því lögðum við höfuðin í bleyti til að finna einstaka vöru sem nánast kynnir sig sjálf,“ segir Eydís.

Zeto er eitt þeirra líftæknifyrirtækja sem stofnað var áratuginn eftir bankahrun. Vörur Zeto innihalda lífvirkt íslenskt þaraþykkni sem róar, styrkir og viðheldur heilbrigði húðar.

Sonurinn þolir ekki paraben

Eydís er land- og umhverfisfræðingur. Í um tvö ár, starfaði hún við kortlagningu fjöruvistgerða þar sem hún segist hafa öðlast gríðarlega þekkingu á hinum ýmsu tegundum sem vaxa við landið.

„Má segja að í gegnum þá vinnu hafi ég kolfallið fyrir þörungum,“ segir Eydís.

Í fjölskyldunni var hún þó ekki ein um það að vera hrifin af eiginleikum þörunga. Því þegar að áhuginn hennar var vaknaður, komst Eydís að því að móðurbróðir hennar, Steindór, hafði verið að vinna með þara og þá þannig að reyna að finna sjálfbærari aðferð til að búa til þaraþykkni.

Á þessum tíma var ég komin með mikinn áhuga á innihaldsefnum í snyrtivörum, því sonur minn þoli ekki paraben. 

Mamma var líka búin að vera gera sín eigin krem og sápur og þegar við þrjú komum saman varð Zeto til,“ 

segir Eydís og bætir við: „Upphaflega hugmyndin var að fullþróa framleiðsluaðferð þaraþykknisins og búa til húðvörulínu sem byggði á því. Við höfum öll mikinn áhuga á sjálfbærni og umhverfismálum og þar sem við erum að nýta hráefni úr hafinu finnst okkur mjög mikilvægt að nota einungis innihaldsefni í vörurnar sem brotna hratt niður í náttúrunni og valda ekki skaða á lífríki hafsins.“

Óþarfi að flytja mikið vatn til Íslands

Að sögn Eydísar hafa vatnslausar og umbúðalausar snyrtivörur verið að ryðja sér til rúms víða í heiminum undanfarið. Eydís segist strax hafa orðið mjög hrifin af þeirri hugmyndafræði að sem flestar umbúðir væru sjálfbærar. Umbúðir púðursjampósins eru úr endurrunnu plasti, sem er líka endurvinnanlegt og ýtir þannig undir hringrásarnýtingu plasts.

En það er ekki allt.

Hefðbundin sjampó eru oft um 70% vatn, með tilfallandi flutningskostnaði og kolefnaspori. Við búum á eyju sem er full af vatni og erum að flytja bæði inn og út gífurlegt magn af vatni. 

Með því að búa til vatnslausa formúlu, og sleppt því að flytja vatn á milli staða, getum við sparað gífurlegar upphæðir og umhverfiskostnað. 52 gr af púðursjampói jafngilda 400 ml af hefðbundnu sjampói,“ 

segir Eydís.

Eydís segir það í raun vera móður sína sem hafi smitað hana af áhuga á náttúrulegum vörum. Þannig hafi hún alist upp við það að týna ber, sveppi og jurtir.

Þá hafi hún sjálf alltaf verið með viðkvæma húð. Fengið rósroða og verið með þurra og viðkvæma húð, eitthvað sem margir glíma við í íslensku veðurfari.

Að sögn Eydísar fór móðir hennar fljótt að prófa sig áfram með alls kyns húðvörur. Fyrst og fremst þó til að mæta ýmsum húðvandamálum innan fjölskyldunnar.

Þegar sonur Eydísar fór síðan að upplifa sitt óþol, vaknaði áhugi Eydísar fyrir alvöru og hún fór að velta því fyrir sér, með hvaða hætti væri hægt að þróa vöru sem fólk með viðkvæma húð gæti notað.

„Púðursjampó er í rauninni eins og venjulegt sjampó, sem þú bleytir upp í lófanum fyrir notkun. Formúlan stuðlar að jafnvægi hársvarðarins og gefur hárinu aukin raka, mýkt og gljáa, án þess að þyngja það. Sjampóið er laust við ertandi súlföt, silíkon, rotvarnarefni, alkóhól og ilmefni og hentar því sérstaklega vel fyrir viðkvæman hársvörð og fyrir þá sem vilja halda í eiginleika þess að vera með liðað eða hrokkið hár.“

Eydís bendir á að á Íslandi sé það mikið til af vatni að það að búa til vatnslausar formúlur, eins og í púðursjampói Zeto, sparist gífurlegar upphæðir og umhverfiskostnaður með því að minnka vöruflutning til Íslands á vörum sem innihalda mikið vatn. Í almennu sjampói er uppistaðan til dæmis um 70% vatn.Vísir/Vilhelm

Betur má ef duga skal

Frá árinu 2016 hefur Zeto hlotið fjölmarga styrki. Þar má nefna styrki frá Tækniþróunarsjóði, AVS Rannsóknarsjóði í sjávarútvegi, Íslandsbanka, Atvinnumál kvenna, Átak til atvinnusköpunar, Gulleggið og fleiri.

Styrkina hlaut Zeto árin 2016, 2017, 2018 og 2019 og segir Eydís þá hafa skipt sköpum við rannsóknir og þróun á þeim vörum sem Zeto er að vinna að.

,,Allir þessir styrkir hafa gert okkur kleift að efnagreina og rannsaka mjög ýtarlega þaraþykknið okkar. Við vitum núna að það hentar afar vel í snyrtivörur og niðurstöður okkar benda til þess að það hafi meðal annars andbólguvirkni auk þess sem notandaprófanir sýna að það er kláðahemjandi. Við höfum einnig þróað vörulínu af húðvörum sem munu koma á markað í kjölfar fyrstu varana sem við erum að opinbera núna í Nýsköpunarvikunni,“ segir Eydís og vísar þar til Pop-up kynninga sem Zeto stendur fyrir í Rammagerðinni þessa dagana.

En betur má ef duga skal.

„Í svona löngu ferli er þetta engan veginn nóg,“ segir Eydís um styrki og stuðning við frumkvöðla og nýsköpunarstarfsemi.

Til að mæta betur kostnaði rannsókna og þróunar og tryggja fyrirtækinu meira fjárhagslegt öryggi, hefur Zeto framleitt vörur frá árinu 2018, sem seldar eru undir nafni annarra fyrirtækja. Að sögn Eydísar hefur sú framleiðsla gefist vel, ekki aðeins fjárhagslega heldur einnig sem mikilvæg reynsla í framleiðslu, innflutningu og sölu.

Doktorspróf í þrautseigju og þolinmæði

Að vera frumkvöðull að reyna að koma nýsköpunarfyrirtæki og vörum á legg, er ekki auðveld vegferð og reynir oft á.

„Það sem mér finnst einna mest erfiðast við að vera frumkvöðull er að maður er mikið að vinna einn og taka allar ákvarðanir sjálfur. Það er líka mun lengri leið frá hugmynd að vöru til vöru á markaði en ég gerði mér grein fyrir þegar ég byrjaði þessa vegferð,“ segir Eydís.

Þá segir Eydís það mikilvægt fyrir frumkvöðla að fá gott fólk til að vinna með sér og þar þurfi mikið traust að ríkja á milli aðila.

„Zeto væri ekki til ef ég hefði ekki fengið til liðs með mér einstaka snillinga á sínum sviðum til þess að sjá um rannsóknir, þróun, hönnun, fjármál og annað með mér,“ segir Eydís.

Að mati Eydísar, eru peningamálin oft erfiðasti hjallinn fyrir frumkvöðla að yfirstíga.

Svo er það líka að ná að skapa sér fjárhagslegt öryggi á meðan beðið er eftir að koma vörum á markað. 

Það er hlutur sem ég held að margir frumkvöðlar springa á,“ 

segir Eydís og bætir við:

„Ég held ég sé nánast komin með doktorspróf í þrautseigju og þolinmæði.


Tengdar fréttir

19 ára með sitt eigið umhverfisvæna framleiðslufyrirtæki

Hulda Fanný Pálsdóttir er 19 ára gömul og búsett í Garðabæ. Þrátt fyrir ungan aldur, er hún búin að stofna fyrirtæki sem heitir AKA og selur töskur sem hún hannar og framleiðir sjálf. Það sem gerir AKA töskurnar sérstakar er að þær eru unnar úr sætisbeltum og leðursætum úr bílum.

Heitir í höfuðið á bryta Batmans

Halldór Friðrik Þorsteinsson, framkvæmdastjóri og einn eigandi ráðningaappsins Alfreðs, segir appið Alfreð heita í höfuðið á bryta Batmans. Alfreð fagnar átta ára afmæli sínu á þessu ári og er í dag í boði fyrir atvinnuleitendur og vinnuveitendur á Íslandi, í Tékklandi, Slóvakíu og á Möltu. Og enn er hugað að fleiri og stærri tækifærum fyrir þetta íslenska app. „Stafrænar lausnir eiga mjög auðvelt með að ferðast og þess vegna er freistandi að horfa út yfir túngarðinn,“ segir Halldór.

Vilja ná sömu dreifingu um heiminn og Covid-19

„Það er ekki hægt að verða stærri en stærsti fiskurinn í sjónum nema vera með góðan grunn og okkur hefur nú þegar tekist að sanna að fólk vill nota vöruna. Það sem þarf hins vegar að gerast núna er varan þarf að sanna sig á mörkuðum utan landsteinanna og hún þarf að geta dreift sér sjálf, manna á milli, nokkurn veginn eins og kórónuveiran,“ segir Ásgeir Vísir, einn eigenda Smitten stefnumótaappsins sem kynnt var til sögunnar laust fyrir síðustu jól.

Arkitektarnir sem selja íslenska ull um allan heim

„Ég fór til föðurömmu minnar, Katrínar Gunnarsdóttur, á hverjum laugardegi í mörg ár frá því að ég var um það bil níu ára. Þá gekk ég frá Álfheimum í Efstastundið til hennar, sat hjá henni í litla eldhúsinu hennar og við prjónuðum saman með útvarps-gufuna í bakgrunninu. Amma eldaði saltfisk með hamsatólg í hádeginu, brauðsúpu með rúsínum eða rabbabaragraut í eftirmat og bakaði svo vöfflur klukkan þrjú,“ segir Kristín Brynja Gunnarsdóttir arkitekt og annar eigandi fyrirtækisins Einrúm um aðdragandann að því að Einrúmbandið varð til.

Stórsókn framundan en fyrstu kynningarnar hálf vandræðalegar

„Fyrstu fjárfestinga kynningarnar okkar Stefáns nafna míns og meðstofnandi í Solid Clouds, voru nú ekki uppá marga fiska. Ég gleymi því aldrei þegar að við æfðum okkur fyrir framan vini og kunningja. Dómarnir voru þeir að ég sneri bakinu í gesti á meðan ég var með framsögu og Stefán félagi minn talaði svo lágt að í honum heyrði enginn. Loks sagði einn í hópnum að hann væri engu nær um hvað við værum að gera og að kynningin væri með verri framsögum sem hann hefði heyrt!“ segir Stefán Gunnarsson, framkvæmdastjóri og einn af stofnendum tölvuleikjaframleiðslufyrirtækisins Solid Clouds.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×