Viðskipti innlent

Biobú kaupir meiri­hluta hluta­fjár í ís­­gerðinni Skúbb

Eiður Þór Árnason skrifar
Fyrsta ísbúðin var opnuð við Laugarásveg 1 í maí 2017.
Fyrsta ísbúðin var opnuð við Laugarásveg 1 í maí 2017. Skúbb

Biobú hefur keypt meirihluta hlutafjár í ísgerðinni Skúbb ehf. Seljandi er Jóhann Friðrik Haraldsson, einn af stofnendum félagsins.

Skúbb á og rekur tvær ísbúðir, annars vegar við Laugarásveg 1 í Reykjavík og hins vegar við Bæjarhraun 2 í Hafnarfirði. Einnig er útsölustaður með jógúrtskálar í Kvikk verslun Orkunnar við Vesturlandsveg. Skúbb selur sömuleiðis ís í matvöruverslanir til veitingahúsa og hótela.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækjunum. Þar segir að Skúbb hafi verið stofnað árið 2017 og fyrsta ísbúðin opnuð við Laugarásveg 1 í lok maí sama ár. Í vörum Skúbb hafi frá upphafi verið notuð lífræn mjólk frá Biobú í ísframleiðsluna og lífræn grísk jógúrt í jógúrtskálarnar.

Vilja hámarka hagkvæmni framleiðslunnar

Biobú ehf. var stofnað árið 2002, er sjálfstætt fjölskyldufyrirtæki og mjólkurbú sem framleiðir og selur lífrænar mjólkurvörur. Stofnendur og aðaleigendur fyrirtækisins eru hjónin Dóra Ruf og Kristján Oddsson, en þau stunda lífræna mjólkurframleiðslu að Neðra Hálsi í Kjós.

Framkvæmdastjóri Bióbús og verðandi framkvæmdastjóri Skúbb er Helgi Rafn Gunnarsson.

,,Ég er afar spenntur fyrir nýjustu fjárfestingu fyrirtækisins. Þetta er rökrétt framhald í okkar rekstri en undanfarna mánuði hefur Biobú fjárfest í nýjum tækjabúnaði og undirbýr að auka mjólkurmagn í sumar með því að taka inn nýtt mjólkurbú sem er í lífrænu vottunarferli," segir Helgi Rafn í tilkynningu.

Sverrir Örn Gunnarsson, framleiðslu- markaðsstjóri Bióbú segir að fyrirtækið hafi unnið náið með Skúbb undanfarin ár og þau þekki því vel til fyrirtækisins.

,,Með fjölgun á útsölustöðum Skúbb er nauðsynlegt að sameina framleiðsluna á einum stað til að hámarka hagkvæmni framleiðslunnar og gæði varanna," segir Sverrir í tilkynningu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×