Viðskipti innlent

Met slegið í fjölda seldra íbúða

Eiður Þór Árnason skrifar
Áfram mælist spenna á fasteignamarkaði.
Áfram mælist spenna á fasteignamarkaði. Vísir/Vilhelm

Í mars var slegið met í fjölda seldra íbúða í einum mánuði þegar 1.300 kaupsamningar voru útgefnir. Hefur meðalsölutími íbúða aldrei verið styttri á höfuðborgarsvæðinu og seldist tæplega þriðjungur eigna þar yfir ásettu verði.

Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS). Er þetta áttundi mánuðurinn í röð sem útgefnir kaupsamningar eru mun fleiri en tíðkast að jafnaði. Fjöldi kaupsamninga á landinu öllu undanfarið ár eru nú meiri en á nokkru öðru 12 mánaða tímabili frá upphafi mælinga árið 2002.

Á höfuðborgarsvæðinu hefur annar eins fjöldi kaupsamninga ekki sést síðan í mars 2007 en þeir voru rúmlega 800. Á sama tíma voru kaupsamningar í nágrenni höfuðborgarsvæðisins um 260 sem er meiri fjöldi en áður hefur mælst. Annars staðar á landinu voru kaupsamningar 230 talsins, sem er einum samningi fleiri en fyrra met sem var sett í maí 2007.

Húsnæðis- og mannvirkjastofnun

25 prósent íbúða á landsvísu yfir ásettu verði

Fram kemur í tilkynningu HMS að meðalsölutími íbúða hafi dregist verulega saman seinustu mánuði á höfuðborgarsvæðinu en hann var í mars um 38 dagar og hefur aldrei mælst styttri. Sölutími íbúða í fjölbýli var 37 dagar og 40 dagar fyrir sérbýli. Á landsbyggðinni var sölutíminn að jafnaði 74 dagar og hefur verið nokkuð stöðugur frá því í september í fyrra.

Samkvæmt greiningu HMS virðist enn vera talsverður eftirspurnarþrýstingur á fasteignamarkaði. Á landinu öllu seldust um 25% af öllum íbúðum yfir ásettu verði samanborið við 28% í síðasta mánuði en þetta er þó aðeins annar mánuðurinn síðan 2017 sem yfir 20% íbúða seljast yfir ásettu verði. 

Á höfuðborgarsvæðinu seldust um 30% íbúða í fjölbýli yfir ásettu verði og um 31% íbúða í einbýli, sé miðað við þriggja mánaða meðaltal. Á landsbyggðinni seldust um 6% íbúða í fjölbýli

Leiguverð lækkar

Samhliða þessu lækkar leiguverð á höfuðborgarsvæðinu milli ára en í mars mátti þar greina fjölgun þinglýstra leigusamninga.

Leiguverð lækkar um 3,3% milli ára á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt vísitölu HMS en hún hækkar þrátt fyrir það um tæp 0,3% á milli mánaða. Vísitala leiguverðs í nágrenni höfuðborgarsvæðisins lækkar hins vegar um 0,5% á milli febrúar og mars og mælist nú um 1,1% hækkun miðað við sama mánuð í fyrra.

Fjöldi þinglýstra leigusamninga hækkaði talsvert á milli mánaða og er óvenju mikill á höfuðborgarsvæðinu miðað við árstíma. Annars staðar á landinu er fjöldi leigusamninga hins vegar í takt við það sem búast mætti við miðað við árstíma


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×