Viðskipti innlent

Dönsk skip flytja koltvísýring til förgunar á Íslandi

Kjartan Kjartansson skrifar
Koltvísýringurinn verðru fluttur á vökvaformi í sérhönnuðum skipum sem ganga fyrir vistvænu eldsneyti. Í Straumsvík verður koltvísýringurinn svo bundinn í berg.
Koltvísýringurinn verðru fluttur á vökvaformi í sérhönnuðum skipum sem ganga fyrir vistvænu eldsneyti. Í Straumsvík verður koltvísýringurinn svo bundinn í berg. Carbfix

Samið hefur verið um að danska skipafélagið Dan-Unity CO2 sjái um flutning á koltvísýringi til förgunar í fyrirhugaðri miðstöð Carbfix í Straumsvík. Siglingarnar eiga að hefjast árið 2025 en stefnt er að því að farga allt að þremur milljónum tonna af koltvísýringi árlega árið 2030.

Sérhönnuð skip danska félagsins eiga að flytja 12-24 þúsund tonn af koltvísýringi á vökvaformi hvert og eitt frá Norður-Evrópu. Þau ganga fyrir vistvænu eldsneyti og á kolefnissporið sem hlýst af flutningnum að nema 3-6% af þeim koltvísýringi sem verður fargað í Straumsvík fyrst um sinn en það á svo að fara lækkandi, að því er segir í tilkynningu frá Carbfix.

Móttöku- og förungarmiðstöð Carbfix byggir á tækni við að dæla uppleystum koltvísýringi niður í jörðina og binda hann þar til langs tíma. Hún er sögð verða sú fyrsta sinnar tegundar.

Byggja á miðstöðina, sem nefnist Coda Terminal, í þremur áföngum. Undirbúningur að fyrsta áfanga á að hefjast um mitt þetta ár með forhönnun og vinnu við leyfisferla. Rannsóknarboranir eiga að hefjast á næsta ári og rekstur árið 2025. Miðstöðin verði fullbyggð árið 2030.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kynnti sér Carbfix-verkefnið í Hellisheiðarvirkjun á fyrsta degi heimsóknar sinnar hingað til lands í gær.


Tengdar fréttir

Segir kolefnisförgun geta orðið eina stærstu atvinnugrein Íslendinga

Að binda kolefni í bergi gæti mögulega verið orðin ein stærsta tekjulind Íslendinga eftir um áratug. Þetta segir Ólafur Ragnar Grímsson vegna áforma fyrirtækisins Carbfix um að reisa kolefnisförgunarmiðstöð í Straumsvík sem á að taka við milljónum tonna af koltvísýringi frá Evrópu á hverju ári.

Ætla að farga milljónum tonna kol­tví­sýrings í Straums­vík

Um sexhundruð ný störf eru sögð geta skapast með tilkomu kolefnisförgunarmiðstöðvar sem Carbfix, dótturfyrirtæki Orku náttúrunnar, ætlar að byggja í Straumsvík. Miðstöðin, sem á að taka við kolefni frá Norður-Evrópu, verður kynnt á opnum fundi á degi jarðar í dag.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×