Körfubolti

Hjalti: Eins og leikur í úrslitakeppni

Gunnar Gunnarsson skrifar
Hjalti Þór er með Keflavík á toppnum.
Hjalti Þór er með Keflavík á toppnum. vísir/vilhelm

Hjalti Vilhjálmsson, þjálfari Keflavíkur, sagði sitt lið hafa þurft að hafa fyrir hlutunum í 62-74 sigri á Hetti í úrvalsdeild karla í körfuknattleik í kvöld. Keflavík vann deildakeppnina með yfirburðum en Höttur féll.

„Þetta var eins og að spila leik í úrslitakeppni, það er sagt þar sé leyfð meiri harka svo það er veganesti fyrir okkur inn í hana að hafa fengið alvöru leik gegn liði sem barðist fyrir lífi sínu. Höttur spilaði mjög fast, við höndluðum það illa í fyrri hálfleik en betur í seinni.

Mér finnst rosalega sárt að sjá Hött fara niður með þetta gott lið sem verðskuldar að vera í úrvalsdeild. En við komum í alla leiki til að vinna og vorum flottir í seinni hálfleik.“

Keflavík tapaði aðeins tveimur leikjum, var fyrir nokkru búið að tryggja sér deildarmeistaratitilinn og endaði með tólf stiga forskot á Þór Þorlákshöfn. Aðspurður svaraði Hjalti að hann hefði þegið þægilegri lokaleik fyrir úrslitakeppnina. „Við vorum meðvitaðir um í hvernig leik við færum. Sem betur fer tórðu menn út leikinn og það er enginn meiddur.“

Keflavík mætir Tindastóli í átta liða úrslitum. „Það verður gaman að fara norður. Þetta verður hörkurimma eins og allar viðureignir í átta liða úrslitum.“

Hann segir yfirburðina í deildinni ekki þýða að Keflavík eigi auðvelda leiki í vændum. „Við vorum klárlega sterkasta liðið í deildinni en úrslitakeppnin er annað mót með annarri umgjörð og fleiru. Það er spurning hvernig menn takast á við það en verður gaman að glíma við þá áskorun.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×