Viðskipti innlent

Þóra fer frá Icelandair yfir til Play

Eiður Þór Árnason skrifar
Síðast starfaði Þóra sem forstöðumaður innanlandsflugs hjá Icelandair.
Síðast starfaði Þóra sem forstöðumaður innanlandsflugs hjá Icelandair. Samsett

Þóra Eggertsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri fjármálasviðs Play. Mun hún bera ábyrgð á að byggja upp fjármálasvið flugfélagsins sem og að leiða skráningu Play á Nasdaq First North Iceland markaðinn. 

Þóra kemur frá Icelandair og tekur til starfa á næstu dögum. Er hún annar framkvæmdastjórinn sem er ráðinn inn til félagsins en í síðustu viku var greint frá því að Georg Haraldsson myndi ganga til liðs við Play sem framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs.

Fram kemur í tilkynningu frá Play að Þóra hafi víðtæka alþjóðlega reynslu af störfum tengdum fjármálum, rekstri og stjórnun sem spanni sautján ár.

Síðast starfaði Þóra sem forstöðumaður innanlandsflugs hjá Icelandair en áður var hún fjármálastjóri og forstöðumaður upplýsingatækni og stafrænnar þróunar hjá Air Iceland Connect. Þóra var forstöðumaður áhættu- og fjárstýringar hjá Landsneti á árunum 2012 til 2017 og vann einnig við fjárstýringu hjá Landic Property. Áður starfaði Þóra um nokkurra ára skeið hjá Morgan Stanley í Tókýó.

Flugið heillar

„Flugrekstur er einstaklega heillandi. Ég hef mikla trú á þeirri hugmyndafræði sem eigendur og forstjóri PLAY hafa sett fram og hlakka til þess að taka þátt í framtíðaruppbyggingu félagsins. Ferðaþjónusta er öflug og ég er sannfærð um að hún muni blómstri á ný eftir þessa krefjandi tíma,“ segir Þóra í tilkynningu.

Þóra er viðskiptafræðingur með löggildingu í verðbréfaviðskiptum. Hún er með mastersgráðu í markaðsfræðum frá viðskiptaháskólanum EADA í Barcelona og MBA frá Háskólanum í Reykjavík. Þóra er gift Bjarna Erni Kærnested, forstöðumanni hjá Össuri og eiga þau tvö börn.

Birgir Jónsson, forstjóri PLAY, segist vera ánægður með að fá Þóru inn í stjórnunarteymið.

„Það er sannarlega mikill fengur fyrir Play að fá Þóru til starfa. Hún hefur öflugan alþjóðlegan bakgrunn í fjármálum og rekstri og þekkir auk þess vel til flugreksturs. Play mun vaxa hratt á næstunni og þá skiptir lykilmáli að teymið sem stýrir félaginu sé samhent og öflugt,” segir Birgir í tilkynningu.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×