Viðskipti innlent

Fiskisund og Birta í hópi stærstu hluta­hafa Play

Atli Ísleifsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifa
Frá kynningarfundi Play í Perlunni í maí 2019.
Frá kynningarfundi Play í Perlunni í maí 2019. Vísir/Vilhelm

Fjárfestingafélagið Fiskisund, sem Einar Örn Ólafsson fjárfestir fer fyrir, og lífeyrissjóðurinn Birta verða í hópi þriggja stærstu hluthafa Play í kjölfar nýafstaðins hlutafjárútboðs hins verðandi flugfélags.

Þetta kemur fram í Markaði Fréttablaðsins í dag en þar segir að þessi tveir aðilar haldi á um fimmtán prósent eignarhlut hvort um sig.

Fiskisund og Birta fjárfestu bæði fyrir tæplega milljarð króna í útboðinu, en því lauk síðastliðinn föstudag. Alls var fjárfest fyrir rúmlega 40 milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði vel á sjötta milljarðs króna.

Einnig segir frá því að aðrir helstu hluthafar Play séu meðal annars fjárfestingafélagið Stoðir, sem skráði sig fyrir rúmlega 600 milljónum króna í útboðinu og eignast við það um 9 prósenta hlut, tryggingafélagið VÍS og sjóðir í stýringu Akta.

Eignarhaldsfélagið FEA, sem Skúli Skúlason stýrir og varð eigandi alls hlutafjár í Play fyrir um ári síðan, er enn stærsti einstaki hluthafi Play og heldur á meira en fimmtungshlut eftir hlutafjárútboðið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×