Körfubolti

Phoenix vann framlengdan toppslag og fullkomin endurkoma Durants

Sindri Sverrisson skrifar
Kevin Durant fagnar með félögum sínum í endurkomuleiknum í nótt.
Kevin Durant fagnar með félögum sínum í endurkomuleiknum í nótt. AP/Frank Franklin II

Phoenix Suns unnu framlengdan toppslag við Utah Jazz í NBA-deildinni í körfubolta í nótt, 117-113. Kevin Durant lék sinn fyrsta leik fyrir Brooklyn Nets í tæpa tvo mánuði og klikkaði ekki á skoti, í afar öruggum sigri á New Orleans Pelicans, 139-111.

Utah er enn á toppi vesturdeildar (38 sigrar/13 töp) þrátt fyrir tapið en nú með aðeins einum tapleik minna en Phoenix (36/14).

Phoenix var nær sigri í venjulegum leiktíma en Donovan Mitchell setti niður erfiðan þrist til að jafna metin í 102-102 þegar tíu sekúndur voru eftir. Í framlengingunni skoraði Phoenix fyrstu fimm stigin og lenti aldrei undir.

Devin Booker skoraði 35 stig og Chris Paul 29 en þeir settu báðir niður mikilvægar körfur fyrir Phoenix í framlengingunni.

Brooklyn skoraði 79 stig í fyrri hálfleik

Kevin Durant skoraði 17 stig fyrir Brooklyn í sínum fyrsta leik frá því 13. febrúar en hann var mættur til leiks eftir slæm meiðsli í læri.

Durant skoraði úr öllum fimm skotum sínum utan af velli og báðum vítunum, eftir að hafa misst af 23 leikjum, og átti sinn þátt í mögnuðum fyrri hálfleik Brooklyn gegn New Orleans. Hann átti auk þess fimm stoðsendingar og tók sjö fráköst á þeim 19 mínútum sem hann spilaði.

Durant kom inn á í 2. leikhluta en Brooklyn skoraði heil 43 stig í þeim leikhluta og var 79-59 yfir að honum loknum.

Brooklyn (36/16) er efst í austurdeild, einum sigri ofar en Philadelphia 76ers, en Pelíkanarnir (22/29) eru í 11. sæti vesturdeildar og þurfa að gera betur til að komast í umspilið í maí. Næsta lið fyrir ofan þá er Golden State Warriors (24/27).

Úrslit næturinnar:

  • Indiana 141-137 Minnesota
  • Orlando 116-131 Washington
  • Boston 101-99 New York
  • Brooklyn 139-111 New Orleans
  • Houston 102-93 Dallas
  • Atlanta 113-131 Memphis
  • Oklahoma 102-113 Charlotte
  • Denver 106-96 San Antonio
  • Phoenix 117-113 Utah
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×