Körfubolti

NBA dagsins: Westbrook með svakalega metþrennu í sigri Galdrakarlanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Russell Westbrook var í miklum ham gegn Indiana Pacers.
Russell Westbrook var í miklum ham gegn Indiana Pacers. getty/Katherine Frey

Russell Westbrook hefur náð fjölmörgum þreföldum tvennum á ferlinum en engri eins og í leik Washington Wizards og Indiana Pacers í NBA-deildinni í nótt.

Westbrook skoraði 35 stig, tók fjórtán fráköst og gaf 21 stoðsendingu í átta stiga sigri Washington, 132-124.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu NBA sem leikmaður skorar 35 stig eða meira og gefur tuttugu stoðsendingar eða meira í leik.

Westbrook hefur náð sextán þrennum í NBA í vetur og á nú metið yfir flestar þrennur í sögu Washington, þótt hann hafi bara gengið í raðir liðsins síðasta haust og leikið 38 leiki fyrir það. Darrell Walker átti gamla metið en hann náði fimmtán þrennum á árunum 1987-91.

Washington þurfti sannarlega á miklu og góðu framlagi frá Westbrook að halda í nótt þar sem stigahæsti leikmaður NBA, Bradley Beal, var frá vegna meiðsla.

Japanski framherjinn Rui Hachimura skoraði 26 stig fyrir Washington og Chandler Hutchinson var með átján stig í sínum fyrsta leik fyrir félagið. 

Washington hefur nú unnið tvo leiki í röð eftir að hafa tapað átta af níu leikjum þar á undan. Washington er í 12. sæti Austurdeildarinnar og þarf að gefa í ef liðið ætlar að komast í umspil um sæti í úrslitakeppninni.

Stórleikur Domantas Sabonis dugði skammt fyrir Indiana. Hann skoraði 35 stig, tók ellefu fráköst og hitti úr tólf af nítján skotum sínum utan af velli. Indiana er í 9. sæti Austurdeildarinnar.

Í spilaranum hér fyrir neðan má sjá brot úr leikjum Washington og Indiana, Brooklyn Nets og Miami Heat og Los Angeles Clippers og Milwaukee Bucks, auk viðtals við Westbrook og flottustu tilþrifa næturinnar.

Klippa: NBA 30. mars

NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×