Lífið

Birtir myndband af eldgosinu í Geldingadal og sárnar að hafa rétt misst af því

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Will Smith er ein skærasta stjarnan í Hollywood. Honum þykir mikið til drónamyndbands Björns Steinbekks koma, þar sem drónanum er flogið inn í hraunsletturnar.
Will Smith er ein skærasta stjarnan í Hollywood. Honum þykir mikið til drónamyndbands Björns Steinbekks koma, þar sem drónanum er flogið inn í hraunsletturnar. Vísir/Getty/vilhelm

Bandaríski leikarinn og stórstjarnan Will Smith birtir í dag myndband af eldgosinu í Geldingadal á Instagram-reikningi sínum og þykir mikið til þess koma. Þá má ætla af færslu Smiths að hann hafi nýlega komið á slóðir eldgossins á Reykjanesi.

„Þetta er þriðja eldfjallið sem gýs rétt eftir að ég heimsæki það,“ skrifar Smith og virðist svekktur. Þá nafngreinir hann Björn Steinbekk, höfund myndbandsins, og hrósar honum fyrir færnina á drónann.

„Ég ætla að kanna hvort ég finni leiðbeiningar í upptökunni um hvernig ég eigi að losna undan eldfjallabölvuninni minni,“ skrifar Smith að lokum.

Smith dvaldi hér á landi við kvikmyndatökur í ágúst og september í fyrra. Hann fór meðal annars að Dettifossi og ferðaðist um Norðurland. Þá getur verið að í þeirri ferð hafi hann einnig farið á eldfjallaslóðir á Reykjanesi.

Myndbandið sem Smith birtir er drónamyndband úr smiðju áðurnefns Björns af gossvæðinu. Myndbönd Björns, og einkum það sem Smith deilir í dag, hafa vakið heimsathygli. Björn ræddi vinsældir eldgosamyndbandanna og færni sína í drónaflugi við Vísi á þriðjudag.

Will Smith er ein af skærustu stjörnum Hollywood. Hann hefur leikið í stórmyndum á borð við Bad Boys, Men in Black, Ali, The Pursuit of Happyness og svo mætti lengi telja.

Hér fyrir neðan má sjá myndband Björns sem Smith deildi í dag. Í því flýgur Björn dróna sínum inn í hraunslettur sem spýtast upp úr gígnum. Þá má nálgast fleiri myndbönd á Instagram-reikningi Björns hér.


Tengdar fréttir

Eldgosið gæti staðið lengur en talið var í fyrstu

Eldgosið í Geldingadal gæti staðið yfir lengur en í fyrstu var áætlað. Það gæti jafnframt varað í nokkur ár miðað við önnur sambærileg gos. Styrkur gossins hefur smám saman aukist en hraunflæðisspá sýnir að hraunið muni mögulega ná alveg að Stóra-Hrút eftir ellefu daga.

Komu eins og frelsandi englar og báru bíla í burtu

Umferðaröngþveiti hefur verið á Suðurstrandarvegi undanfarna daga þar sem hver göngumaðurinn á fætur öðrum hefur mætt til að bera eldgosið í Geldingadal augum. Ástand myndaðist á veginum í gær en þá komu norskir hermenn til bjargar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×