Handbolti

Aron Kristjáns fer á Ólympíuleikana

Sindri Sverrisson skrifar
Aron Kristjánsson er þjálfari Hauka en mun jafnframt stýra Barein á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar.
Aron Kristjánsson er þjálfari Hauka en mun jafnframt stýra Barein á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar. vísir/vilhelm

Aron Kristjánsson, þjálfari toppliðs Hauka í Olís-deild karla í handbolta, verður einn þeirra íslensku þjálfara sem fara á Ólympíuleikana í Tókýó í sumar.

Aron hefur verið ráðinn þjálfari Barein á nýjan leik og tekur við starfinu af Halldóri Jóhanni Sigfússyni, þjálfar Selfoss, sem stýrði Barein til 21. sætis á HM í Egyptalandi í janúar.

Aron tók við Barein árið 2018 og kom liðinu á Ólympíuleikana í Tókýó, en hætti svo þjálfun liðsins fyrir ári síðan til að einbeita sér að sínu nýja starfi sem þjálfari Hauka.

Ólympíuleikunum var hins vegar frestað um eitt ár, fram í júlí í sumar, og nú er ljóst að Aron fer á leikana eftir allt saman. Frá þessu er greint á Twitter-síðu handknattleikssambands Bareins.

Alls verða því fjórir íslenskir handboltaþjálfarar á Ólympíuleikunum í Tókýó. Alfreð Gíslason komst á dögunum þangað með þýska karlalandsliðið og Þórir Hergeirsson með norska kvennalandsliðið. Dagur Sigurðsson þjálfar svo heimamenn í karlalandsliði Japans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×