Umfjöllun og viðtöl: Keflavík - Njarðvík 89-57 | Sjóðheitir Keflvíkingar ljúka Reykjanesslagnum með eldgosi

Atli Arason skrifar
Vísir/Hulda Margrét

Keflavíkingar eiga montréttinn í Reykjanesbæ þetta árið eftir að hafa unnið báða leikina gegn erkifjendunum í Njarðvík. Keflavík vann fyrri leik liðanna 77-90 á útivelli og í kvöld unnu þeir 89-57 á heimavelli.

Njarðvík setti niður fyrstu körfu leiksins og var það í raun eina skiptið í leiknum sem Njarðvík var yfir því Keflavík tók öll völd eftir það. Keflvíkingar voru með sýningu í fyrsta leikhluta. Dean Williams kveikti í áhorfendum í Blue-höllinni með troðslum sem honum einum er lagið og Hörður Axel var með skotsýningu þar sem hann setti niður hvern þristinn á fætur öðrum. Hörður gerði 22 stig í leiknum en 14 af þeim komu í fyrsta leikhluta sem lauk 23-15 fyrir heimamönnum.

Njarðvíkingar byrjuðu þó annan leikhluta að krafti. Rodney Glasgow skoraði sín fyrstu stig eftir rúmar 50 mínútur af stigaleysi og Njarðvík náði að minnka muninn minnst niður í 4 stig um miðjan annan leikhluta en við það komust Keflvíkingar í fluggírinn og juku forskot sitt mest í 14 stig. Njarðvíkingar virtust þó ekki ætla að gefast upp og síðustu 5 stig leikhlutans voru þeirra og liðin gengu til búningsherbergja í stöðunni 45-36.

Það var þó í þriðja leikhluta sem heimamenn gerðu út um leikinn. Keflavík herti vörnina sína og Njarðvík skoraði einungis 2 stig á fyrstu 5 mínútum þriðja leikhluta á meðan allt fór ofan í hjá Keflavík. Fór svo að lokum að heimamenn unnu leikhlutan 28-8, í raun leikur kattarins að músinni og leikurinn svo gott sem búinn fyrir fjórða og síðasta leikhluta þar sem Keflavík leiddi með 29 stiga mun, 73-44.

Síðasti leikhlutinn var meira og minna ruslatími (e. Garbage time) þar sem bekkirnir hjá báðum liðum spiluðu nánast allan leikhlutann, leikhlutinn var jafn og lítið skorað en úrslitin voru þegar ráðin. Keflavík vann að lokum með 32 stigum, 89-57.

Af hverju vann Keflavík?

Það er erfitt að setja það niður á einhvern einn ákveðinn hlut. Keflavík var einfaldlega betra á öllum tölfræðiþáttum leiksins, frá A-Ö.

Hverjir stóðu upp úr?

Hörður Axel Vilhjálmsson elskar að spila þessa nágranaslagi. Hörður var bæði með flest stig og flestar stoðsendingar allra leikmanna í kvöld, 22 stig og 10 stoðsendingar.

Hvað gerist næst?

Njarðvík spilar strax aftur á sunnudaginn þegar þeir fá Val í heimsókn. Keflavík fær auka dag í hvíld þegar þeir heimsækja Grindvíkinga á mánudag.

Jón Arnór: Það er erfitt að hitta fólkið sitt því maður skammast sín svo mikið

Jón Arnór Sverrisson, leikmaður Njarðvíkurvísir/vilhelm

Jón Arnór Sverrisson, leikmaður Njarðvíkur, var algjörlega miður sín og hálf orðlaus í viðtali eftir 89-57 tap gegn erkifjendunum í Keflavík.

„Ég skammast mín, þetta er það versta sem ég hef á ævinni minni séð. Ég bara veit ekki hvað ég get sagt meira.“

Aðspurður af því hvers vegna Njarðvík tapaði svona stórt í kvöld svaraði Jón,

„Það er erfitt að segja, ég eiginlega bara veit það ekki. Við spiluðum ekki vörn í kvöld og vorum lélegir í sókn. Þetta er alls ekki nógu gott. Ég veit ekki hvað ég get sagt meira.“

Keflavík var betri aðilinn í fyrri hálfleik en Njarðvíkingar voru þó ekki langt á eftir en í þriðja leikhluta þá gjörsamlega hrundi leikur gestanna og Keflavík valtaði yfir þá.

„Við byrjuðum hræðilega í þriðja leikhluta, ég veit ekki hvort við náðum einu sinni að skora eitthvað á fyrstu mínútunum, þeir tóku eitthvað 13 eða 15-0 áhlaup á okkur.“

Jóni er þá bent á að Njarðvíkingar skoruðu bara tvö stig á fyrstu fimm mínútum þriðja leikhlutans.

„Einmitt, það segir bara hversu slappir við vorum sóknarlega. Þetta er búið að vera svolítið svona í vetur. Allt of mikið drippl og hnoð. Við vorum að taka allt of mikið af tveggja stiga skotum sem er eiginlega versta skotið í leiknum, svona 'jumper-ar' á dripplinu.“

„Við vorum inn í leiknum í hálfleik en svo bara mættum við ekki til leiks í seinni hálfleik. Við vorum andlausir og andleysið var of mikið, það er eins og við höfum ekki trú á þessu. Við höfum verið að byrja þessa síðustu tapleiki ágætlega en svo fer einhvern veginn allt alltaf í klessu í seinni hálfleik. Það sama gerðist í dag.“

Jón Arnór og Þröstur Leó lentu eitthvað saman í fjórða leikhluta en það er alltaf mikill hiti í mönnum þegar þessi lið mætast á vellinum. Aðspurður að því hvað fór fram þeirra á milli sagði Jón,

„Hann er með einhverja stæla þegar þeir eru 30 stigum yfir. Það er tilgangslaust og algjör óþarfi hjá honum. Hann sagðist þurfa að vera leiðinlegur, hann ræður hvernig hann hefur þetta en hann er samt toppmaður.“

Njarðvíkingar eru komnir í bullandi vesen í deildinni og eru farnir að daðra við falldrauginn. Einar Árni þjálfari Njarðvíkur kvartaði yfir því eftir tapið gegn Tindastól í síðasta leik liðsins að ósanngjarnt væri að mótherjar Njarðvíkur fái ítrekað auka dag í hvíld. Það truflar Jón Arnór þó ekki mikið.

„Nei mér finnst þetta bara gaman. Færri æfingar og fleiri leikir en það er ógeðslega erfitt að vera tapa endalaust, það tekur á þegar maður þarf að mæta í vinnuna daginn eftir. Það er erfitt að hitta fólkið sitt því maður skammast sín svo mikið og sérstaklega eftir svona leik þar sem við spiluðum eins og aumingjar.“

„Við erum allavega ekkert hættir, langt því frá. Það jákvæða við þetta er að við getum nánast bara farið upp á við eftir þetta,“ sagði Jón Arnór Sverrisson að lokum.

Hörður Axel: Keflavík gegn Njarðvík eru alltaf sérstakir leikir

Hörður Axel Vilhjálmsson, leikmaður Keflavíkur.vísir/anton

Það mátti sjá á Herði Axel að hann kom gífurlega vel stendur inn í þennan gegn Njarðvík í kvöld, Hörður Axel var frábær í kvöld og þá sérstaklega í fyrsta leikhluta.

„Keflavík gegn Njarðvík eru alltaf sérstakir leikir. Maður fær extra 'boost' þegar maður spilar þessa leiki. Þeir voru að spila vissa vörn á mig sem þeir hafa gert áður og ég var undirbúinn fyrir það og ég vissi að þessi skot yrðu opin. Sem betur fer fóru þau ofan í,“ sagði Hörður í viðtali eftir leik.

Keflavík hefur nú unnið báða leikina gegn erkifjendunum í Njarðvík en Hörður var ekki að gera of mikið úr þessum sigri á nágrönnunum.

„Ég er bara jafn ánægður og að vinna aðra leiki. Þetta snýst um að safna stigum og ég er virkilega ánægður með frammistöðuna okkar í kvöld sama hvaða mótherji það er. Ég er sáttur með andann í liðinu og baráttuna allan leikinn. Þetta er fyrsti leikurinn sem við náum að setja saman rokk solid 40 mínútur, sem er eitthvað til að byggja á.“

Keflavík var mun betri aðilinn í leiknum í kvöld og voru alltaf skrefinu á undan en í þriðja leikhluta þá gerðu heimamenn algjörlega út um leikinn.

„Við vorum að ná að fikra okkur á liðunum í fyrri hálfleik, maður er að rótera á kerfunum bara svona til að skoða hvað virkar. Varnarlega erum við einhvern veginn alltaf þéttari í seinni hálfleik. Það kemur meiri orka í þriðja leikhluta sérstaklega, það er líka eitthvað sem mætti alveg byrja fyrr,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira