Viðskipti innlent

Nýtir peningana frá Twitter til að opna kaffi­hús og bíó á uppáhalds staðnum

Eiður Þór Árnason skrifar
Veitingastaðurinn Icelandic Fish & Chips var lengi starfræktur í húsnæðinu.
Veitingastaðurinn Icelandic Fish & Chips var lengi starfræktur í húsnæðinu. Aðsend/Samsett

Fé­lagið Unn­ar­stíg­ur ehf., sem er í eigu Har­ald­ar Inga Þor­leifs­son­ar, hef­ur keypt jarðhæðina við Tryggvagötu 11 í Reykja­vík­. Haraldur er stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno en hann seldi félagið til Twitter um síðustu áramót. Það er því vel við hæfi að hann hafi greint frá fasteignakaupunum á Twitter-síðu sinni í gær.

Þar segist hann stefna að því að opna kaffihús og lítið kvikmyndahús við Tryggvagötu með haustinu í einni af hans uppáhalds byggingum í Reykjavík.

Hinn vinsæli veitingastaður Icelandic Fish & Chips var lengi starfræktur í húsnæðinu en honum var lokað síðla árs 2019. Félagið Original Fish & Chips ehf. seldi eignina til Unnarstígs ehf. fyrir 135 milljónir króna í janúar samkvæmt þinglýstum kaupsamningi.

Jarðhæðin er 387 fer­metrar að stærð og er fast­eigna­mat hæðar­inn­ar 159,5 milljónir króna. Haraldur bjó í San Francisco í fimm ár en flutti í fyrra aftur heim til Íslands með fjölskyldu sinni. Hann er nú eini starfsmaður Twitter á Íslandi.

Haraldur hefur í nógu að snúast þessa daganna en auk þess að stefna að kaffihúsarekstri kemur hann að stofnun Aðgengissjóðs Reykjavíkurborgar og verkefninu Römpum upp Reykjavík. Hyggst sjóðurinn setja upp hundrað rampa fyrir fólk á hjólastólum í miðborg Reykjavíkur á næstu misserum.

Mbl.is greindi frá því í janúar að félag Haraldar hafi fest kaup á glæsiíbúð Kalla í Pels­in­um sem stendur við Tryggvagötu 18a. Það verður því stutt fyrir Harald að komast á kaffihúsið þegar að því kemur.

Lítill kvikmyndasalur er í húsinu.Eg Fasteignamiðlun
Jarðhæðin er innréttuð sem veitingasalur, kvikmyndasalur og verslunarrými.Eg fasteignamiðlun
Veitingasalurinn á Tryggvagötu 11. Eg fasteignamiðlun

Tengdar fréttir

Twitter kaupir íslenskt fyrirtæki

Bandaríski samfélagsmiðillinn Twitter hefur keypt íslenska tækni- og hönnunarfyrirtækið Ueno sem stofnað var árið 2014 og hefur vaxið hratt undanfarin ár.

Ueno kemst á lista Inc. eftir hraðan vöxt

Vefhönnunarfyrirtækið Ueno er komið á árlegan lista yfir hraðast vaxandi fyrirtækin í Bandaríkjunum. Fyrirtækið var stofnað 2014 og útlit er fyrir að tekjur þessa árs nemi um 2,5 milljörðum króna.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×