Viðskipti innlent

Launahækkun og þriggja milljóna króna eingreiðsla til Bjarna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bjarni Bjarnason, forstjóri OR.
Bjarni Bjarnason, forstjóri OR.

Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, er með tæplega 2,9 milljónir á mánuði í laun eftir fimmtán prósent launahækkun sem tók gildi um mánaðamótin.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu þar sem vísað er til þess að stjórn Orkuveitu Reykjavíkur hafi veitt hækkunina að undangengnu mati á frammistöðu Bjarna í starfinu.

Laun hans fyrir hækkun voru 2,5 milljónir króna á mánuði. Fram kemur í Fréttablaðinu að Bjarni fái sömuleiðis eingreiðslu upp á þrjár milljónir króna þar sem launakjör hans hafi ekki verið uppfærð í tvö ár, eins og segir í samþykkt stjórnarinnar.

Í Fréttablaðinu kemur fram að Orkuveita Reykjavíkur hafi fengið endurskoðunarfyrirtækið PWC til að vinna fyrir sig könnun um laun forstjóra og aðalframkvæmdastjóra hjá stóriðju- og veitustarfsemi annars vegar og hjá fyrirtækjum með yfir fjörutíu milljarða króna í veltu hins vegar.

Könnunin hafi náð til 24 fyrirtækja og reyndust heildarlaun þess hóps að meðaltali tæplega 4,2 milljónir króna á mánuði árið 2020. 

Bjarni var ráðinn forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur í febrúar árið 2011 og hefur því sinnt starfinu í tíu ár.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×