Viðskipti innlent

Af­gangur á við­skipta­jöfnuði stórjókst milli fjórðunga

Eiður Þór Árnason skrifar
Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.441 milljarði króna í lok síðasta árs en skuldir 3.402 milljörðum króna.
Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.441 milljarði króna í lok síðasta árs en skuldir 3.402 milljörðum króna. Vísir/Heiða

Á fjórða ársfjórðungi 2020 var 22,1 milljarða króna afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd samanborið við 2,9 milljarða króna ársfjórðunginn á undan. Halli á vöruskiptajöfnuði var 15,5 milljarðar króna en afgangur á þjónustujöfnuði var 26,4 milljarðar króna.

Í lok fjórða ársfjórðungs var hrein staða við útlönd jákvæð um 1.039 milljarða króna eða 35,3% af vergri landsframleiðslu (VLF) og batnaði um 83 milljarða króna eða 2,8% af VLF á fjórðungnum.

Þetta kemur fram í bráðabirgðayfirliti Seðlabanka Íslands en viðskiptaafgangur fyrir árið 2020 í heild nam 30,9 milljörðum króna samanborið við 193,9 milljarða króna fyrir árið á undan. Halli á vöruskiptajöfnuði var 90,3 milljarðar króna en afgangur á þjónustujöfnuði var 72,8 milljarðar króna.

Óhagstæðari þjónustuviðskipti skýra minni viðskiptaafgang

Viðskiptaafgangur var 30,6 milljarða króna minni á fjórða ársfjórðungi en á sama ársfjórðungi árið 2019. Að sögn Seðlabankans skýrist það aðallega af mun óhagstæðari þjónustuviðskiptum um sem nemur 35,1 milljarði króna. Munar þar mest um umtalsvert minna verðmæti útfluttrar þjónustu eða sem nemur 69,9 milljarða króna. Innflutt þjónusta minnkaði um 34,7 milljarða króna. Vöruviðskipti voru hagstæðari um sem nemur 1,6 milljarða króna.

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.441 milljarði króna í lok fjórða ársfjórðungs en skuldir 3.402 milljörðum króna. Hrein fjármagnsviðskipti bættu erlenda stöðu þjóðarbúsins um 77 milljarða króna á fjórðungnum en erlendar eignir minnkuðu um 13 milljarða króna vegna fjármagnsviðskipta og skuldir um 90 milljarða króna. 

Virði eigna lækkaði á ársfjórðungnum um 58 milljarða króna vegna gengis- og verðbreytinga og skuldir um 47 milljarða króna.

Í heildina leiddu gengis- og verðbreytingar til 12 milljarða króna lækkunar á hreinni erlendri stöðu þjóðarbúsins. Verð á erlendum verðbréfamörkuðum hækkaði um rúm 14% og verð á bréfum á innlendum hlutabréfamarkaði um 22,4%. Gengi krónunnar hækkaði um 4% miðað við gengisskráningarvog.


Tengdar fréttir

Við­skipta­af­gangurinn sjö milljarðar króna

Afgangur á viðskiptajöfnuði við útlönd var sjö milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi þessa árs, samanborið við 16,7 milljarðar króna afgang ársfjórðunginn á undan.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×