Körfubolti

Tólf leikja bann fyrir að miða byssu á fólk

Sindri Sverrisson skrifar
Malik Beasley er lykilmaður hjá Minnesota Timberwolves en verður ekki með liðinu í næstu tólf leikjum.
Malik Beasley er lykilmaður hjá Minnesota Timberwolves en verður ekki með liðinu í næstu tólf leikjum. Getty/Hannah Foslien

Malik Beasley, leikmaður Minnesota Timberwolves, hefur verið úrskurðaður í 12 leikja bann í NBA-deildinni eftir að hann hlaut dóm fyrir að miða byssu á fólk.

Beasley mun ekki fá laun þann tíma sem hann er í banni og verður því af 1,1 milljón Bandaríkjadala, tæplega 140 milljónum króna, áður en hann má snúa aftur til leiks 27. mars.

Beasley var fyrr í þessum mánuði dæmdur til 120 daga fangelsisvistar eftir að hafa játað sök vegna glæps sem hann framdi í september í fyrra. Hann miðaði þá byssu á fólk sem hafði lagt bíl sínum fyrir utan húsnæði hans, og skipaði því að yfirgefa svæðið. Hann hélt áfram að miða byssu á bílinn á meðan að fólkið ók í burtu, samkvæmt lögregluskýrslum.

Lögregluþjónar sem komu á staðinn fundu sterka maríjúanalykt og við leit í húsinu fannst mikið magn maríjúana og stolin byssa.

Beasley þarf ekki að taka út sína fangelisrefsingu fyrr en eftir að leiktíðinni í NBA-deildinni lýkur, og samkvæmt umboðsmanni hans gæti verið að hann taki út refsingu sína í stofufangelsi.

Beasley hefur skorað 20,5 stig að meðaltali í leik í vetur en Minnesota hefur gengið afleitlega og er liðið neðst með sjö sigra og 26 töp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×