Körfubolti

Keflavík áfram taplaust eftir spennutrylli

Anton Ingi Leifsson skrifar
Keflavík er í góðum málum í Domino's deild kvenna.
Keflavík er í góðum málum í Domino's deild kvenna. vísir/hulda margrét

Keflavík er með fullt hús stiga eftir átta umferðir eftir að liðið vann sigur á Fjölni, 86-85, í Dalhúsum í kvöld.

Mikið jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleiknum. Keflavík var stigi yfir eftir fyrsta leikhlutann, 19-18, og staðan í hálfleik var svo 44-39, Keflavík í vil.

Keflavík bætti í forystuna í þriðja leikhlutanum og héldu flestir að þá væri leiknum lokið en heimastúlkur voru á öðru máli.

Þær voru mun sterkari í fjórða leikhlutanum og komust meðal annars yfir er rúmar þrjár mínútur voru eftir, 79-78.

Lina Pikciuté jafnaði svo metin er tvær sekúndur voru eftir í 85-85 og Keflavík tók leikhlé.

Þær fengu vítaskot og þar hitti Daniela Wallen Morillo úr öðru vítinu. Fjölnir tók þá leikhlé en tapaði strax boltanum. Lokatölur því 86-85, Keflavík í vil, í miklum spennuleik.

Daniela Wallen Morillo átti enn einn stórleikinn fyrir Keflavík. Hún gerði 22 stig, tók þrettán fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Katla Rún Garðarsdóttir kom næst með sextán stig, fimm fráköst og þrjár stoðsendingar.

Lina Pikciuté gerði 21 stig fyrir Fjölni. Einnig tók hún átján fráköst og gaf sex stoðsendingar. Ariel Hearn bætti við sautján stigum, sjö fráköstum og átta stoðsendingum.

Keflavík er með sextán stig á toppi deildarinnar en nýliðar Fjölnis eru í fjórða sætinu með tólf stig. Fjölnir hefur leikið ellefu leiki en Keflavík átta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×