Viðskipti innlent

Mynd­band sýnir fyrir­hugaða upp­byggingu í mið­bæ Akur­eyrar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Svona munu húsin á svokölluðum Drottningarbrautarreit líta út, samkvæmt tillögu Luxor.
Svona munu húsin á svokölluðum Drottningarbrautarreit líta út, samkvæmt tillögu Luxor. Luxor/THG arkitektar

Tillögur að uppbyggingu á lóðum við Austurbrú og Hafnarstræti í miðbæ Akureyrar liggja nú fyrir en þær voru til umfjöllunar í skipulagsráði bæjarins í gær. Þar var samþykkt að heimila forsvarsmönnum fjárfestingafélagsins Luxor ehf. að hefja vinnu við breytingar á deiliskipulagi í samráði við Akureyrarbæ. Myndband sem sýnir fyrirhugaða uppbyggingu var jafnframt birt í gær sem nálgast má neðar í fréttinni.

Tillögurnar ganga í meginatriðum út á blandaða byggð með íbúðum af mismunandi stærðum og gerðum og verslunar- eða veitingastarfsemi. Gert er ráð fyrir að nýbyggingar myndi tvo kjarna í kringum opin sameiginleg garðsvæði með gönguleiðum, torgum og leiksvæðum, að því er fram kemur í tilkynningu á vef Akureyrarbæjar.

Tillagan gerir ráð fyrir að núverandi byggingarréttur norðan við Hafnarstræti 82 verði færður á suðurhlið sama húss, en með því móti myndast torg sem tengir Hafnarstræti inn í nýju byggðina. Lagt er upp með að gegnumakstur milli nýbygginga að Hafnarstræti og Austurbrú verði aflagður en í stað þess verði hugsanlega kvöð um gönguleið í gegnum hverfið ásamt niðurkeyrslu í bílageymslur.

„Markmið þróunaraðila er að reiturinn verði til þess að styrkja stöðu miðbæjarins sem þungamiðju menningar, verslunar og þjónustu. Lögð er áhersla á að yfirbragð nýbygginga falli vel að núverandi byggð og bæjarmynd,“ segir í tilkynningu.

Hér fyrir neðan má sjá myndband af tillögu Luxor, sem teiknuð er af THG arkitektum, um uppbyggingu á lóðunum, sem kallaðar hafa verið Drottningarreitur. 

Myndbandið er birt á YouTube-síðu Skapta Hallgrímssonar, ritstjóra Akureyri.net.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×