Viðskipti innlent

Lára af skjánum og til Aztiq Fund

Atli Ísleifsson skrifar
Lára Ómarsdóttir.
Lára Ómarsdóttir. Aztiq Fund

Lára Ómarsdóttir, sem starfað hefur sem fréttamaður á RÚV, hefur verið ráðin samskiptastjóri Aztiq Fund.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá sjóðnum. Þar segir að Aztiq Fund hafi verið virkur langtímafjárfestir hérlendis og erlendis, meðal annars í fasteignum, lyfjaiðnaði, heilsueflingu og menningarauði. 

„Hlutverk Láru verður að halda utan um samskipti við hagaðila, þar á meðal yfirvöld, fjölmiðla og fjárfesta og að byggja upp vitund á fyrirtækinu. Hún mun einnig taka virkan þátt í að móta stefnu félagsins til framtíðar, en félagið hyggur á frekari fjárfestingar hérlendis og erlendis sem og að stækka fjárfestahópinn, sem nú þegar samanstendur af öflugum íslenskum og erlendum einstaklingum sem og alþjóðlegum fjárfestingarsjóðum.

Lára hefur víðtæka reynslu af fjölmiðlum, sem fréttamaður, vefritstjóri og dagskrárgerðarkona bæði í útvarpi og sjónvarpi og býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á starfi fjölmiðla. Í starfi sínu hefur hún meðal annars vakið athygli fyrir umfjöllun um félagsleg málefni og náttúru Íslands. Lára lauk B.ed gráðu í íslensku og stærðfræði árið 2004. Áður starfaði hún meðal annars sem innkaupastjóri og sem framkvæmdastjóri knattspyrnufélags. Hún hefur skrifað eina bók, Hagsýni og hamingja,“ segir í tilkynningunni. 

Á heimasíðu Aztig kemur fram að Aztiq Fund sé virkur langtímafjárfestir hérlendis og erlendis, meðal annars í fasteignum, lyfjaiðnaði, menningarauði og samfélagsverkefnum.

Fjárfestingahópurinn Aztiq Fund samanstandi af öflugum íslenskum og erlendum einstaklingum sem og alþjóðlegum fjárfestingarsjóðum. Stærstu eignir Aztiq fund séu í Alvogen, Alvotech og fasteignafélaginu Sæmundi.

Þá muni Aztiq Fund vera stór hluthafi í Þorpinu – vistfélagi í samstarfi við Reykjavíkurborg og stendur að uppbyggingu hátækniseturs í Vatnsmýri.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×