Lífið

Laga­smiður Midnight Train to Georgia fallinn frá

Atli Ísleifsson skrifar
Jim Weatherly gaf út á annan tug platna á tónlistarferli sínum sem spannaði um fimm áratugi.
Jim Weatherly gaf út á annan tug platna á tónlistarferli sínum sem spannaði um fimm áratugi. Getty/Ava Gandy

Bandaríski söngvarinn og lagasmiðurinn Jim Weatherly, sem er best þekktur fyrir að hafa samið smellinn Midnight Train to Georgia, er látinn, 77 ára að aldri.

Í tilkynningu frá fjölskyldu Weatherly segir að hann hafi andast á heimili sínu nærri Nashville í Tennessee á miðvikudag. Er hann sagður hafa látist af náttúrulegum orsökum.

Weatherly gaf út á annan tug platna á tónlistarferli sínum sem spannaði um fimm áratugi. Á námsárum sínum þótti hann efnilegur leikstjórnandi í fótboltaliði Mississippi-háskóla, en sneri sér að lokum að tónlistinni og fluttist til Los Angeles.

Midnight Train to Georgia náði efsta sæti bandaríska vinsældalistans árið 1973 í flutningi Gladys Knight & the Pips og vann til Grammy-verðlauna. Fjölmargir hafa síðan tekið lagið upp á sína arma, þar með talin stórsöngkonan Aretha Franklin.

Vinsælasta lag Weatherly í eigin flutningi var lagið I'll Still Love You. Á ferli sínum samdi hann einnig fjölda annarra laga sem nutu vinsælda í flutningi Gladys Knight, þar með talin Neither One of Us Wants to Be the First to Say Goodbye og You're the Best Thing (That Ever Happened to Me).
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.