Viðskipti erlent

Asos tekur yfir Tops­hop og skilur eftir sár í breskum verslunar­götum

Eiður Þór Árnason skrifar
Topshop er nýjasta breska fatamerkið sem fellur í skaut netverslunarrisa.
Topshop er nýjasta breska fatamerkið sem fellur í skaut netverslunarrisa. GETTY/Marianna Massey

Breska vefverslunin Asos hefur fest kaup á vörumerkjunum Topshop, Topman, Miss Selfridge og HIIT úr þrotabúi smásölurisans Arcadia. Auk þess að kaupa öll hugverk tengd fatakeðjunum mun Asos eignast vörubirgðir þeirra en stjórnendur hyggjast ekki taka yfir neinar verslanir.

70 verslunum verður þar með lokað og 2.500 starfsmenn eiga á hættu á að missa vinnuna en einhverjir gera sér veikar vonir um að annar kaupandi muni halda áfram að starfrækja hluta verslananna í breyttri mynd.

Að sögn breska ríkisútvarpsins BBC greiðir Asos 265 milljónir breskra punda til að tryggja sér eignarhald á vörumerkjunum og aðrar 30 milljónir punda fyrir vörubirgðirnar. Nemur heildarupphæðin um 52,5 milljörðum íslenskra króna.

Smásölufyrirtækið Arcadia var tekið til gjaldþrotaskipta í nóvember síðastliðnum en alls starfa um 13 þúsund manns hjá fyrirtækinu. Að sögn skiptastjóra Arcadia munu um 300 starfsmenn sem sinntu meðal annars hönnun og birgðainnkaupum hjá fatakeðjunum færast yfir til Asos en að sögn BBC hafa hvorki fulltrúar þrotabúsins né Asos minnst einu orði á framtíð verslunarstarfsfólks.

Boohoo sýnt öðrum merkjum áhuga

Enn á eftir að selja eignir tengdar fatakeðjunum Dorothy Perkins, Wallis og Burton úr þrotabúi Arcadia. Að sögn BBC hafa stjórnendur bresku netverslunarinnar Boohoo sýnt þeim áhuga en talið er fullvíst að þar muni enn og aftur koma í ljós að netverslanir hafi lítinn áhuga á því að starfrækja hefðbundnar verslanir.

Greint var frá því í síðustu viku að Boohoo hafi fest kaup á vörumerki og vefsíðu breska vöruhússins Debenhams. Talið er að allt að tólf þúsund manns eigi eftir að missa vinnuna þegar 118 verslunum keðjunnar verður lokað fyrir fullt og allt.

Viðskipti síðustu vikna eru hluti af blóðugu uppgjöri breskra smásölufyrirtækja sem hafa á síðustu árum mörg átt erfitt með að halda sjó í breyttu rekstrarumhverfi og eltast við hvikulan smekk bresku þjóðarinnar. Heimsfaraldur kórónuveiru og áhrif samkomutakmarkanna reyndist sumum þeirra vera síðasti naglinn í kistuna.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Mesta hækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
ARION
2,88
84
1.509.460
LEQ
1,07
3
1.561
EIK
1,02
9
162.021
ORIGO
0,87
6
8.077
MAREL
0,79
42
399.998

Mesta lækkun dagsins


Félag
Br.%
Fjöldi
Velta*
REGINN
-2,53
5
5.773
BRIM
-2,18
11
121.698
REITIR
-1,2
9
30.241
EIM
-1,01
11
119.722
SKEL
-0,94
2
5.998
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.