Körfubolti

„Mér skilst að hann hafi sagt eitt­hvað sem hann átti ekki að segja“

Atli Arason skrifar
Úr leik hjá Grindavík á síðustu leiktíð.
Úr leik hjá Grindavík á síðustu leiktíð. Vísir/Elín Björg

Kristinn Pálsson, leikmaður Grindavíkur, var vitanlega ekki sáttur eftir stórt tap gegn Keflavík á útivelli í kvöld en tæplega þrjátíu stiga munur var á liðunum er lokaflautið gall.

„Það er mikið sem við getum lært af þessu. Þetta var ekki nógu góð frammistaða hjá, sérstaklega í seinni hálfleik. Bæði liðin voru taplaus fyrir þennan leik og menn komu vel stemdir inn í leikinn en þeir bara yfirspiluðu okkur og out-hössluðu okkur og það er eitthvað sem við þurfum að læra fyrir næstu leiki. Við erum að fara í svaka törn þannig að við verðum að taka þetta með og koma mótiveraðri í næstu leiki,“ sagði Kristinn frekar fúll í viðtali eftir leik.

Það munaði ekki nema 5 stigum á liðunum í hálfleik en Keflvíkingar vinna seinni hálfleikinn með 22 stigum. Það var því töluvert meiri munur á liðunum í þeim síðari. Joonas Jarvelainen var rekin út af um miðjan þriðja leikhluta, Kristinn telur það vera hluta af skýringunni.

„Við missum stóra manninn okkar út, hann var rekinn út úr húsi. Hann var með 21 stig í fyrri hálfleik og var svolítið að draga vagninn fyrir okkur. Það er mikill missir að vera án kana og hans, þá erum við frekar litlir og eigum erfitt með að gera marga hluti. Það fór svolítið með þennan leik. Við vorum inn í leiknum fram af því, þó það hafi kannski orðið 8 stiga munur, þá vorum við samt inn í þessum leik,“ svaraði Kristinn.

Kristinn var ekki alveg viss hvers vegna Joonas var rekinn út af.

„Ég sá það ekki. Mér skilst að hann hafi sagt eitthvað sem hann átti ekki að segja, í hita leiksins þá getur allt gerst en við verðum bara að læra af þessu,“ bætti Kristinn við áður en hann var spurður út í afar áhugaverða viðureign sem Grindavík á næst, en það er leikur gegn uppeldisfélagi Kristins í Njarðvík.

„Mjög spenntur, það er bara að halda áfram og vonandi gengur okkur betur þar en hér,“ sagði Kristinn Pálsson, bakvörður Grindavíkur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×