Handbolti

Danir kvarta aftur yfir áhorfendum á HM og tala um skandal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Slóvenar fengu óvæntan stuðning úr stúkunni gegn Egyptum í gær.
Slóvenar fengu óvæntan stuðning úr stúkunni gegn Egyptum í gær. epa/Mohamed Abd El Ghany

Danir halda áfram að kvarta yfir áhorfendum á leikjum á heimsmeistaramóti karla í handbolta í Egyptalandi.

Þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn ætluðu mótshaldarar að leyfa takmarkaðan fjölda áhorfenda á HM. Þeir féllu hins vegar frá þeim fyrirætlunum sínum skömmu fyrir mót eftir kröftug mótmæli, meðal annars frá leikmönnum.

Ekki hefur þó alltaf verið farið eftir áhorfendabanninu. Eftir upphafsleik Egyptalands og Síle fjallaði Ekstra Bladet um að áhorfendur hefðu verið í höllinni.

Svo virðist sem áhorfendabannið hafi líka verið virt að vettugi í gær þegar Egyptar og Slóvenar áttust við. BT í Danmörku fjallar um málið.

„Þetta er eins og áhorfendaskandallinn á upphafsleik mótsins,“ segir Søren Paaske, blaðamaður BT. „Það verður áhugavert að heyra útskýringarnar á þessu. Mótshaldarar virðast enn og aftur í vandræðum.“

Flestir áhorfendur í höllinni í Kairó voru á bandi Egypta en Slóvenar fengu einnig stuðning úr stúkunni.

Alþjóðahandknattleikssambandið, IHF, hefur áður afsakað sig með því að fólkið í stúkunni á leikjum séu sjálfboðaliðar sem hjálpi til við framkvæmd mótsins.

Með jafnteflinu gegn Slóveníu tryggði Egyptaland sér sæti í átta liða úrslitum HM. Þar mæta Egyptar heimsmeisturum Dana.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.