Viðskipti innlent

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar mælir með sölu á allt að 35 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka

Heimir Már Pétursson skrifar
Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar vill að allt að 35 prósenta hlutur verði seldur í Íslandsbanka með tilteknum skilyrðum um söluna og eignarhaldið.
Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar vill að allt að 35 prósenta hlutur verði seldur í Íslandsbanka með tilteknum skilyrðum um söluna og eignarhaldið. Vísir/Vilhelm

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis telur rétt að hefja sölu á allt að þrjátíu og fimm prósentum af eign ríkisins í Íslandsbanka. Setti verði takmörk á hvað hver og einn geti eignast stóran hlut í bankanum.

Nefndin hefur sent fjármálaráðherra álit sitt á greinargerð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra til nefndarinnar um sölu á hlutum ríkisins í Íslandsbanka sem ráðherra sendi nefndinni rétt fyrir jól. Ríkið á alla hluti í bankanum en í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er tekið fram að dregið skuli úr eignarhaldi ríkisins í fjármálastofnunum. Jafnframt er tekið fram að stefnt sé að því að ríkið eigi áfram ráðandi hlut í Landsbankanum til langframa.

Ríkið á alla hluti í Íslandsbanka og nánast alla hluti í Landsbankanum. Áfram er stefnt að því að ríkið eigi ráðandi hlut í Landsbankanum til framtíðar.Vísir/Vilhelm

Bankasýsla ríkisins sem fer með hluti þess í fjármálastofnunum tilkynnti fjármálaráðherra skömmu fyrir áramót að hún teldi rétt að hefja söluferli á hlutum í Íslandsbanka. Í greinargerð ráðherra til efnahags- og viðskiptanefndar er grengið út frá að bankinn verði skráður á innlendan hlutabréfamarkað og fjórðungs hlutur seldur til að byrja með.

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndarsegir í umsögn sinni til fjármálaráðherra að við útboð og skráningu hlutabréfa Íslandsbanka sé nauðsynlegt að hugað verði að nokkrum atriðum. Að stuðlað verði að aukinni samkeppni á fjármálamarkaði og lagður verði grunnur að dreifðu eignarhaldi og fjölbreytileika í eigendahópi Íslandsbanka.

Nefndin telur að tryggja verði að tilboðsgjafar í hluti undir ákveðinni krónutölu (a.m.k. einni milljón króna að markaðsvirði) verði ekki fyrir skerðingu ef umframeftirspurn verði eftir hlutum í bankanum í útboðinu. Þá geti hver og einn tilboðsgjafi ekki eignast meira en 2,5–3,0 prósent af heildarhlutafé bankans. Einnig verði lágmark og hámark á þann hlut í bankanum sem ríkið bjóði til kaups í útboðinu, til dæmis þannig að lágmark verði 25 prósent og hámark 35 prósent.

Fulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Miðflokks og Pírata í viðskipta- og efnahagsnefnd skila allir hver um sig séráliti um áformin til fjármálaráðherra.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×