Handbolti

Strákarnir okkar fá að fara fyrr að sofa í þessari viku

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenski varnarveggurinn reynir að loka á aukakast Ashraf Adli hjá Marokkó í gærkvöldi.
Íslenski varnarveggurinn reynir að loka á aukakast Ashraf Adli hjá Marokkó í gærkvöldi. EPA-EFE/Khaled Elfiqi

Riðill Íslands á HM í handbolta í Egyptalandi kláraðist í gær og sjónvarpsstöðvarnar í Evrópu hafa nú náð samkomulagi um klukkan hvað leikir milliriðlanna fara fram.

Milliriðill íslenska liðsins hefst strax á miðvikudaginn og íslenska liðið fær minnsta hvíld af liðunum í riðlinum.

Tímasetningar á leikjum íslenska handboltalandsliðsins í milliriðlinum voru gefnar út seint í gærkvöldi.

Íslensku strákarnir spila fyrsta leikinn í milliriðli þegar þeir mæta Svisslendingum á miðvikudaginn klukkan hálfþrjú.

Íslenska liðið spilaði alltaf síðasta leik kvöldsins í riðlakeppninni en spilar aldrei síðasta leikinn í milliriðlinum. Strákarnir okkar þurftu því oft að fara seint að sofa undanfarna daga þar sem leikir þeirra hófust ekki fyrr en klukkan hálf tíu að staðartíma.

Nú fara leikir þeirra ekki fram eins seint og Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari sendir því strákana örugglega fyrr í háttinn næstu daga.

Norðmenn spila síðasta leik kvöldsins á fyrri tveimur leikdögunum en þegar kemur að leiknum við Íslands þá eiga þeir leik tvö.

Frakkar mæta Íslendingum í leik tvö á föstudaginn kemur. Tveir af þremur leikjum íslenska liðsins hefjast því klukkan 17.00.

Leikir Íslands í milliriðlinum:

  • Miðvikudagurinn 20. janúar klukkan 14.30 Ísland - Sviss
  • Föstudagurinn 22. janúar klukkan 17.00 Ísland - Frakkland
  • Sunnudagurinn 24. janúar klukkan 17.00 Ísland - Noregur



Fleiri fréttir

Sjá meira


×