Viðskipti innlent

Stjórn­völd greiddu Icelandair 350 milljónir króna vegna flug­ferða

Eiður Þór Árnason skrifar
Á tímabili féll nær allt millilandaflug Icelandair og fleiri flugfélaga niður vegna áhrifa heimsfaraldursins. 
Á tímabili féll nær allt millilandaflug Icelandair og fleiri flugfélaga niður vegna áhrifa heimsfaraldursins.  Vísir/Vilhelm

Íslensk stjórnvöld greiddu Icelandair tæpar 350 milljónir króna á síðasta ári til að tryggja lágmarksflug til og frá landinu. Fyrsti samningur þess efnis tók gildi í lok mars á síðasta ári og fól í sér að ríkið myndi greiða upp tap flugfélagsins sem hlaust af því að halda flugi gangandi til og frá Evrópu og Bandaríkjunum.

Stjórnvöld gerðu í kjölfarið fleiri samninga við Icelandair á sama grunni til að viðhalda flugsamgöngum á sama tíma og millilandaflug lagðist í dvala um allan heim vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru.

Vefmiðillinn Túristi greinir frá upphæðinni en samningurinn sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið gerði við Icelandair í maí heimilaði að heildarkostnaður vegna hans gæti að hámarki numið 500 milljónum króna.

Frá 27. júní hafa samningar einungis gilt um um flug til Boston í Bandaríkjunum en þar að auki gerði ráðuneytið viðaukasamning við Icelandair vegna flugs til Alicante í apríl.

Í síðustu viku greindi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið frá því að það hafi gert nýjan samning við Icelandair sem geri ráð fyrir því að flogið verði minnst tvisvar í viku til Boston fram til 31. mars. Er gert ráð fyrir því að hægt verði að framlengja samninginn undir lok tímabilsins.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×