Norwegian hefur átt í miklum fjárhagsvandræðum síðustu mánuði, líkt og önnur flugfélög.EPA/TOMS KALNINS
Norska flugfélagið Norwegian hefur ákveðið að hætta að bjóða upp á áætlunarflug á lengri flugleiðum samkvæmt tilkynningu til norku kauphallarinnar. Er þar verið að bregðast við erfiðri fjárhagsstöðu félagsins sem orðið hefur fyrir búsifjum líkt og önnur flugfélög vegna heimsfaraldursins.
Eftirspurn eftir flugi á lengri leiðum hefur dregist sérstaklega mikið saman á síðustu mánuðum og segir félagið að sá hluti rekstrarins sé ekki lengur sjálfbær. Því hafi þessi ákvörðun verið tekin.
Í tilkynningunni segir að félagið leggi nú áherslu á að byggja upp öflugan og arðbæran rekstur innan Norðurlandanna til að tryggja eins mörg störf og mögulegt sé. Langur tími muni líða þar til að eftirspurn eftir lengri flugferðum verði komin í það horf sem hún hafi verið fyrir faraldurinn.
Norwegian mun áfram halda úti innanlandsflugi í Noregi, innan Norðurlandanna og milli áfangastaða á Norðurlöndum og til annarra staða í Evrópu.
Ákvörðunin að hætta rekstri á lengri flugleiðum mun óhjákvæmilega leiða til fækkunar starfsmanna, að sögn forstjóra Norwegian.
Með þessari ákvörðun er Norwegian í raun að hverfa aftur til uppruna síns því félagið var byggt upp í kringum flug á styttri flugleiðum.
Flugfélagið Norwegian Air hefur leitað til dómstóla á Írlandi vegna mikilla skulda. Um er að ræða viðleitni til að koma í veg fyrir gjaldþrot flugfélagsins á tímum kórónuveirufaraldursins.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.