Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna segir að fyrirtækið hafi kosið „hagnað frekar en hreinskilni“ þegar kom að öryggi vélanna. Breska ríkisútvarpið greinir frá þessu.
Allar Boeing 737 Max vélar voru kyrrsettar í mars 2019 eftir tvö flugslys, annað í Indónesíu og hitt í Eþíópíu, þar sem samtals 346 létu lífið. Rannsókn á slysunum leiddi í ljós að bæði slysin mætti rekja til búnaðar í vélunum, MCAS, sem átti að koma í veg fyrir ofris.
Meirihluti greiðslunnar fer til flugfélaga
Um 500 milljónir af þessum 2,5 milljörðum fara til fjölskyldna þeirra 346 sem létust í flugslysunum.
David Calhoun, framkvæmdastjóri Boeing, sagði áðan: „Ég trúi því af öllu hjarta að þessi lausn sé það rétta í málinu – skref sem viðurkennir það að við fylgdum ekki gildum okkar og væntingum.“
Meirihluti greiðslunnar, eða um 1,77 milljarðar, mun fara til viðskiptavina fyrirtækisins, það er til flugfélaga, sem hafa þurft að kyrrsetja Boeing vélar sínar undanfarin tæp tvö ár.
Rannsóknin, sem leiddi til þessa, var gerð fyrir öldungadeild Bandaríkjaþings og sögðu niðurstöður hennar að sýna mætti fram á að bæði flugmálayfirvöld í Bandaríkjunum (FAA) og Boeing hafi haldið upplýsingunum leyndum.
Í skýrslu rannsakenda var fullyrt að flugmálayfirvöld hafi í samstarfi við yfirmenn hjá Boeing ákveðið fyrir fram hver niðurstaða prófana á MCAS búnaðinum ætti að vera. Átti sú niðurstaða enn frekar að leiða líkur að því að mannleg mistök flugmanna og langur viðbragðstíma þeirra hafi spilað stóran þátt í flugslysunum.