Handbolti

Segir Ísland spila fallegan handbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fabio Magalhaes á blaðamannafundi í Porto fyrir leik Íslands og Portúgals.
Fabio Magalhaes á blaðamannafundi í Porto fyrir leik Íslands og Portúgals. Getty/Rita Franca

Fábio Magalhaes talaði vel um íslenska handboltalandsliðið fyrir leik Portúgals og Íslands í undankeppni EM.

Fábio Magalhaes er ekki bara leikmaður portúgalska landsliðsins því hann er einnig leikmaður Porto. Leikur Íslands og Portúgals í undankeppni EM 2022 fer einmitt fram í Matosinhos sem er borg rétt norður af Porto.

Fábio Magalhaes býst við erfiðum leik á móti góðu íslensku liði.

„Við búumst við því að mæta liði með leikmenn sem þekkja íþróttina mjög vel. Þeir spila allir í góðum deildum og með góðum liðum,“ sagði Fábio Magalhaes í viðtali á heimasíðu portúgalska handboltasambandsins.

„Ísland spilar fallegan handbolta og ég sjálfur er mjög hrifinn af leik íslenska landsliðsins,“ sagði Magalhaes.

Magalhaes er ekki sá eini í portúgalska landsliðinu sem gerir lítið úr fjarveru Arons Pálmarssonar í leiknum.

„Það er ekki satt að það muni veikja íslenska liðið að spila án Arons Pálmarssonar. Við verðum að einbeita okkur að því að stoppa hina leikmennina sem hafa mikla hæfileika,“ sagði Fábio Magalhaes.

Fábio Magalhaes skoraði þrjú mörk úr sex skotum þegar Ísland vann 28-25 sigur á Portúgal á EM í byrjun síðasta árs. Magalhaes gaf einnig þrjár stoðsendingar í leiknum.

„Við þurfum að sýna að við séum á heimavelli og að við höfum metnað til að vinna þennan leik. Með sigri kæmum við okkur í mjög góða stöðu í riðlinum og settum pressuna á íslenska liðið,“ sagði Magalhaes sem var spurður út í leik þjóðanna á EM.

„Við byrjuðum leikinn illa á móti þeim á EM. Við náðum að koma okkur aftur inn í leikinn en íslenska liðið er reynslumikið og kunni að stjórna leiknum. Sá leikur er búinn að nú einbeitum við okkur af leiknum á miðvikudagskvöldið,“ sagði Magalhaes.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×