Fótbolti

Paradís samanborið við aðra staði sem ég hef verið á

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hannes Þ. Sigurðsson
Hannes Þ. Sigurðsson
Hannes Þ. Sigurðsson hefur samið við austurríska úrvalsdeildarfélagið SV Grödig og mun spila með liðinu næstu tvö árin. Tímabilið í Austurríki er nýhafið og gerði Grödig, sem er að spila í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins, jafntefli í fyrsta leik.

Hannes hefur verið síðustu mánuði hjá sænska liðinu Mjällby en segir við Fréttablaðið að það hafi aldrei staðið til að vera lengur en fram á mitt sumar.

„Félagið þurfti sóknarmann vegna meiðsla og því hentaði það þeim mjög vel að gera stuttan samning við mig. Ég vildi nýta þennan tíma til að byggja mig upp eftir enn ein meiðslin hjá mér og koma mér í gott stand. Svo ætlaði ég að finna mér félag í Evrópu,“ segir Hannes.

„Áætlunin gekk því fullkomlega upp og ég er mjög ánægður.“

Uppgangur Grödig hefur verið ótrúlegur en liðið hefur unnið sig upp um fimm deildir á aðeins tíu árum. Til marks um það tekur völlur félagsins aðeins tæplega þrjú þúsund manns í sæti. „Þetta er lítið félag en metnaðargjarnt. Æfingaaðstaðan er svo með því besta sem ég hef kynnst og líst mér því gríðarlega vel á þetta.“

Hannes hefur komið víða við á sínum ferli og spilað til að mynda í Kasakstan og Rússlandi. Austurríki er áttunda landið sem hann spilar í á ferlinum.

„Félagið er í grennd við Salzburg sem er algjör paradís miðað við suma af þeim stöðum sem ég hef verið á,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×