Sport

Fyrirliði Vals er enginn dóni

Sigurbjörn Hreiðarsson fyrirliði Vals í Landsbankadeild karla segir það rangt að hann hafi sýnt stuðningsmönnum KR "dóna-fingurinn" eftir að Garðar Gunnlaugsson skoraði sigurmark Vals í Frostaskjólinu á fimmtudagskvöld en markið sló KR út úr bikarkeppninni þetta árið. Fréttir í útvarpinu á föstudag hermdu að Sigurbjörn hefði lagt lykkju á leið sína að eigin vallarhelmingi eftir markið og með fyrrgreindri líkamstjáningu ógnað stuðningsmönnum KR sem standa hinum meginn við völlinn, gegnt stúkunni. "Hnefinn fór á loft en ekki puttinn" sagði Sigurbjörn í samtali við Visir.is í dag. "Þetta var svona sigurhnefi. Þetta var nefnilega svo sérstaklega sætur sigur, að slá KR út úr bikarnum á heimavelli þeirra, að ég hljóp í áttina sem orðljótu áhorfendurnir voru og rétti sigurhnefann á loft. Þá leggur maður vinstri höndina yfir hægri sem er með hnefann krepptan en er svo sem ekkert ólíkt dónamerkinu ef út í það er farið. Það stóðu reyndar nokkrir Valsarar þarna líka svo ég var meira að senda fagn-skilaboð til þeirra. En ég er einfaldlega ekki það illa innrættur að ég fari að sýna KR-ingum þannig óvirðingu. Ég ber of mikla virðingu fyrir þeim fyrir slíkt." sagði Sigurbjörn sem er enn í skýjunum eftir sigurinn enda hafði hann beðið í mörg ár eftir sigri á KR í Frostaskjólinu. Valur mætir Fylki í undanúrslitum VISA bikarsins en í hinum leiknum mætast Fram og FH. Báðir leikirnir fara fram á Laugardalsvelli dagana 3. og 4. ágúst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×