Innlent

Viðræðum SA og VLFA slitið hjá sáttasemjara

Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforingi á Akranesi.
Vilhjálmur Birgisson verkalýðsforingi á Akranesi.
Viðræðum á milli Verkalýðsfélags Akraness og Samtaka atvinnulífsins með ríkissáttasemjara hefur verið slitið. „Í morgun fundaði formaður félagsins með ríkissáttasemjara og forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins vegna kjarasamnings Verkalýðsfélags Akraness á hinum almenna vinnumarkaði. Það er skemmst frá því að segja að niðurstaðan var engin og lét formaður bóka hjá ríkissáttasemjara árangurslausan fund sem er forsenda fyrir því að hægt sé að hefja verkfallsaðgerðir,“ segir á heimasíðu félagsins.

VLFA var fyrsta félagið til að vísa sinni kjaradeilu á hinum almenna vinnumarkaði til ríkissáttasemjara þann 21. janúar síðastliðinn. „Samkvæmt lögum um stéttarfélög og vinnudeilur er ekki hægt að hefja verkfallsaðgerðir eða boðun nema deilunni hafi verið vísað til sáttasemjara og farið hafi fram árangurslausar viðræður. Nú er eins og áður sagði þessu ferli lokið hjá félaginu og ljóst að strax eftir helgi mun félagið kalla saman samninganefnd félagsins til að fara yfir þá grafalvarlegu stöðu sem upp er komin og undirbúa aðgerðir.“

Þá segir að formaður félagsins Vilhjálmur Birgisson, ætli að leggja til við samninganefnd félagsins að hafinn verði undirbúningur að verkfallsaðgerðum er lúta að fyrirtækjum í fiskvinnslu í fyrstu atrennu. „Félagið mun væntanlega boða starfsmenn fiskvinnslufyrirtækja til áríðandi fundar í næstu viku vegna þeirrar stöðu sem upp er komin ef ekki verður búið að semja fyrir þann tíma.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×