Handbolti

Löwen staðfestir ekki brotthvarf Guðmundar | Kiel vill fá Gensheimer

Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson.
Thorsten Storm, framkvæmdastjóri Rhein-Neckar Löwen, vill ekki staðfesta að Guðmundur Guðmundsson sé að taka við danska landsliðinu.

Storm segir við þýska fjölmiðla í dag að Guðmundur hafi reglulega látið hann vita af áhuga landsliðs á sér. Hann sagði þó ekki hvaða landslið væri um að ræða.

Storm staðfesti einnig að Guðmundur væri með klausu í samningi sínum sem gerði honum kleift að yfirgefa félagið næsta sumar. Danska handknattleikssambandið kynnir nýjan landsliðsþjálfara til leiks á mánudag. Fullyrt er í dönskum fjölmiðlum að það sé Guðmundur Guðmundsson.

Það er sótt víða að Löwen því í dag spurðist út að lið Alfreðs Gíslasonar, Kiel, væri búið að gera tilboð í hornmanninn frábæra, Uwe Gensheimer.

Gensheimer er einnig sagður vera með tilboð frá Barcelona og því afar líklegt að hann fari frá Löwen í sumar er samningur hans rennur út hjá Löwen. Gensheimer segir að sín bíði erfiðasta ákvörðun ferilsins.

Fari svo að hann lendi í Kiel mun hann keppa við Guðjón Val Sigurðsson um hornamannsstöðuna. Guðjón keppti einmitt við Gensheimer um stöðuna hjá Löwen á sínum tíma og mátti þá sætta sig við mikla bekkjarsetu.

Kiel er þó líklega að horfa til framtíðar enda er Guðjón Valur orðinn 34 ára gamall en Gensheimer er 26 ára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×