Erlent

Biður Karadzic að gefa sig fram

Yfirmaður friðargæsluliðs Atlantshafsbandalagsins í Bosníu fagnaði því í gær að eiginkona Radovans Karadzic, fyrrverandi leiðtoga Bosníu-Serba sem eftirlýstur er fyrir stríðsglæpi, hefði opinberlega skorað á mann sinn að gefa sig fram. Ljiljana Karadzic, sem á undanförnum tíu árum hefur jafnan dyggilega stutt hinn eftirlýsta mann sinn, skoraði á hann í viðtali við AP-fréttastofuna á fimmtudagskvöld að gefa sig fram, þar sem fjölskylda hans væri að bugast undan álaginu. Gæsluliðar NATO hafa á liðnum misserum ítrekað gert húsleit hjá frú Karadzic, svo og á heimilum sonar hennar og dóttur. Í byrjun júlí var sonurinn, Aleksandar, handtekinn og yfirheyrður í tíu daga áður en hann var látinn aftur laus. Fjölskyldan hefur ávallt haldið því fram að hún hefði ekkert samband við Karadzic og hún ættu að fá frið fyrir þeim sem leita hans. Steven Schook, yfirmaður NATO-liðsins, fagnaði áskorun frú Karadzic og sagði hana gæfuspor bæði fyrir fjölskylduna og Bosníu. "Flótti Radovans undan framsali til (stríðsglæpadómstólsins í) Haag spillir fyir íbúum Bosníu-Herzegovínu og alls svæðisins," sagði Schook.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×