Körfubolti

Hlutirnir stefna í rétta átt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kanadamaðurinn Craig Pedersen, landsliðsþjálfari Íslands, fylgist með á æfingu liðsins í Ásgarði í Garðabæ í gær.
Kanadamaðurinn Craig Pedersen, landsliðsþjálfari Íslands, fylgist með á æfingu liðsins í Ásgarði í Garðabæ í gær. Fréttablaðið/Daníel
Körfuboltalandsliðið leikur tvo vináttulandsleiki gegn Lúxemborg á fimmtudaginn og föstudaginn. Leikirnir eru liður í undirbúningi Íslands fyrir undankeppni EM 2015, þar sem liðið er með Bretlandi og Bosníu í riðli.

Þetta verða fyrstu leikir Íslands undir stjórn Kanadamannsins Craig Pedersen sem tók við landsliðinu fyrr á árinu. Pedersen kveðst spenntur fyrir leikjunum og segir undirbúninginn hafa verið góðan.

„Æfingar hafa gengið vel hingað til, sérstaklega undir lok síðustu viku. Þá náðum við betra flæði í sóknarleikinn hjá okkur. Við höfum bætt okkur með hverjum deginum sem líður og þetta stefnir í rétta átt,“ sagði Pedersen sem vill sjá íslenska liðið spila sem eina heild í leikjunum gegn Lúxemborg.

Hann segist einnig ætla að gefa ungu leikmönnunum í hópnum tækifæri í vináttuleikjunum en hann leggur mikla áherslu á fráköstin.

„Stærsti þátturinn eru fráköstin. Við verðum að frákasta jafnt og þétt, og það verða allir að leggja sitt af mörkum vegna hæðarmunarins á okkur og mótherjum okkar. Fráköstin eru í forgangi,“ sagði Pedersen.

Hann er ánægður með landsliðshópinn, þótt nokkrir leikmenn hafi ekki gefið kost á sér. Pedersen segist þó sakna Jakobs Arnar Sigurðarsonar sem hefur tekið sér hvíld frá landsliðinu.

„Það hefði verið gott að hafa Jakob með, en fyrir utan hann hefði hópurinn verið eins skipaður. Ég er nokkuð viss um það,“ sagði Kanadamaðurinn að lokum.


Tengdar fréttir

Jón Arnór verður ekki með í Lúxemborg

Besti körfuknattleiksmaður landsins fékk frí vegna persónulegra ástæðna og fer því ekki með í æfingaferðina en mætir til leiks í undankeppni EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×