Enski boltinn

Tólf ára bið Liverpool á enda

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fernando Torres, leikmaður Liverpool.
Fernando Torres, leikmaður Liverpool. Nordic Photos / Getty Images
Fernando Torres batt enda á tólf ára bið Liverpool eftir markaskorara í allra fremstu röð.

Torres skoraði sitt 20. deildarmark á tímabilinu gegn Reading um helgina en það er í fyrsta sinn síðan 1996 sem leikmaður Liverpool skoraði 20 deildarmörk á tímabilinu. Robbie Fowler var síðastur til að ná þeim áfanga.

Fowler var og er enn í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum Liverpool og hjá þeim er hann einfaldlega þekktur sem „guð".

Torres kom til Liverpool í sumar og óhætt að segja að hann hafi slegið rækilega í gegn.

Á þessum tólf árum hafa margir sóknarmenn komið og farið hjá Liverpool og nægir að nefna þá Titi Camara, Erik Meijer, Florent Sinama Pongolle, Djibril Cisse og jafnvel Sean Dundee í því samhengi.

Michael Owen er vitanlega í miklum metum hjá stuðningsmönnum Liverpool og hann skoraði mörg mikilvæg mörk sem færðu félaginu langþráða titla.

Þekkt nöfn eins og Fernando Morientes og Craig Bellamy voru einnig fengin til félagsins en án árangurs.

Stuðningsmenn Liverpool hafa þó mátt taka gleði sína á ný í vetur. Torres hefur alls skoraði 27 mörk í 36 leikjum í öllum keppnum og virðist hvergi nærri hættur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×