Viðskipti innlent

Verð í matvöruverslunum hækkað síðan í febrúar

Andri Eysteinsson skrifar
Verð hækkaði mest á ávöxtum og grænmeti.
Verð hækkaði mest á ávöxtum og grænmeti. Vísir/Getty

Vöruverð í matvöruverslunum landsins hefur í mörgum tilfellum hækkað talsvert síðan í febrúar samkvæmt nýrri úttekt ASÍ. Þó ber að geta að mörg dæmi eru um að vörur hafi einnig lækkað í verði á tímabilinu.

Samkvæmt niðurstöðum verðkönnunar verðlagseftirlits ASÍ sem framkvæmd var dagana 18. febrúar og 21. apríl í Bónus, Krónunni, Hagkaup, Nettó, Fjarðarkaup, Iceland, Kjörbúðinni, Heimkaup.is og Netto.is, sést að mestar hækkanir eru í verði á ávöxtum og grænmeti. Verð hefur til að mynda lækkað á mjólkur- og hreinlætisvörum.

Samkvæmt könnuninni eru hækkanir í flestum verslunum en oftast í Krónunni, Bónus, Fjarðarkaup og Hagkaup. Mestu verðlækkanirnar er hins vegar að finna í verslunum Iceland en þar lækkaði verð í 85% tilfella.

Í verslunum fjórum þar sem verð hækkaði oftast var verð oftast hækkað um 5%. Athygli vekur að verð lækkar mikið í öllum vöruflokkum í Iceland milli mælinga og er algengt að verð lækki um um 15-20% og í einhverjum tilfellum enn meira. Borin voru saman verð á 80 vörum í könnun ASÍ.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×