Erlent

Neyddi 14 ára gamla stúlku í hjónaband

Leiðtogi sértrúarflokks sem aðhyllist meðal annars fjölkvæni var í Utah fylki í Bandaríkjunum í gær fundinn sekur um að hafa beitt börn kynferðislegu ofbeldi. Maðurinn, Warren Jeffs, neyddi tvær unglingsstúlkur í hjónaband.

Warren Jeffs sagði stúlkunum ef þær myndu ekki giftast færu þær beint til helvítis. Önnur þeirra var fjórtán ára þegar hún var neydd í hjónaband en hin nítján. Þær voru báðar látnar gifast skyldmennum sínum.

Sértrúarflokkurinn, sem hér um ræðir, klofnaði út frá Mormónakirkjunni vegna deilna um afstöðu gagnvart fjölkvæni.

Samkvæmt reglum sértrúarflokksins þurfa allir karlmenn að eignast að minnsta kostir þrjár eiginkonur til að tryggja sér vist á himnum. Sjálfur er Warren Jeffs talin eiga um sjötíu eiginkonur.

Fyrir rétti í gær var Warren fundinn meðal annars sekur um að standa fyrir kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum og fyrir að skipuleggja nauðgun. Hann á nú yfir höfði sér allt að ævilangt fangelsi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×