Viðskipti innlent

Hjörleifshöfði fæst keyptur á Facebook

Heiðar Lind Hansson skrifar
„Þetta eru engin alvöru viðbrögð enn þá, en við höfum fengið svolítið af fyrirspurnum,“ segir Þórir Níels Kjartansson, framkvæmdastjóri í Vík og einn eigenda jarðarinnar Hjörleifshöfða í Mýrdalshreppi.

Hjörleifshöfði, sem var auglýstur til sölu í ágúst, er um 11.500 hektarar að stærð. Verðhugmynd er 500 til 1.000 milljónir króna.

Innan jarðarinnar eru Hjörleifshöfði og Hafursey. Landið nær frá Kötlujökli í norðri að sjó að sunnan og er að mestu sandar. Þjóðvegur eitt liggur í gegn um jörðina.

Þórir segir að nýverið hafi verið brugðið á það ráð að auglýsa jörðina með hjálp Facebook. Var auglýsingunni beint til notenda í nokkrum Evrópulöndum. Auglýsingin hafi fengið nokkur viðbrögð.

„Þó hafa aðeins fáar fyrirspurnir borist,“ segir Þórir.

Að sögn Þóris hafa landeigendur reynt að selja íslenska ríkinu jörðina, en það hafi ekki borið árangur.

„Það hefur aldrei komist svo langt að tala um verð,“ segir Þórir um samtal sitt við stjórnvöld.

„Ég tel að ríkið ætti að stefna að því að eignast svona sérstakar lendur þegar þær eru til sölu. Ég er búinn að vera í viðræðum við ráðherra þriggja ríkisstjórna og það kom ekkert út úr þeim. Þannig að við gáfumst upp á þessu og prófuðum að setja þetta á sölu.“ 

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×