Handbolti

Úrslitin í Meistaradeildinni eiga að ráðast í ágúst

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lið félaganna Stefáns Rafns og Arons eru enn með í Meistaradeild Evrópu.
Lið félaganna Stefáns Rafns og Arons eru enn með í Meistaradeild Evrópu. vísir/getty

Evrópska handknattleikssambandið hefur gefið út að ekki verði keppt í Evrópukeppnum í apríl og maí vegna kórónuveirufaraldursins.

Í yfirlýsingu frá EHF kemur fram að keppni gæti hafist aftur í júní. Áætlað er að úrslitahelgi Meistaradeildar Evrópu í karlaflokki fari fram 22. og 23. ágúst en ekki 30. og 31. maí. Að venju á úrslitahelgin að fara fram í Lanxess höllinni í Köln.

Sextán og átta liða úrslit Meistaradeildar karla eiga að fara fram í júní. Samtals fimm Íslendingar eru enn með í Meistaradeild karla (Guðjón Valur Sigurðsson, Stefán Rafn Sigurmannsson, Aron Pálmarsson, Ómar Ingi Magnússon og Janus Daði Smárason) og einn í Meistaradeild kvenna (Rut Jónsdóttir).

Úrslitahelgin í Meistaradeild kvenna verður væntanlega færð til 5. og 6. september. Hún átti að fara fram 9. og 10. maí. Leikið verður í Búdapest.

Þá eiga úrslitin í EHF-bikar karla að ráðast 29. og 30. ágúst í stað 23. og 24. maí. Úrslitahelgin fer fram í Berlín.

Síðustu fjórir leikirnir í undankeppni fyrir EM kvenna fara fram á sama stað dagana 3.-7. júní. Ísland er með Króatíu, Frakklandi og Tyrklandi í riðli.

Umspilsleikir fyrir HM karla fara væntanlega fram fyrstu vikuna í júlí. Það hefur þó ekki enn verið staðfest. Fyrri leikirnir myndu þá fara fram 1. eða 2. júlí og seinni leikirnir 4. eða 5. júlí.

EM U-20 ára karla í Austurríki og Ítalíu hefur verið fært til 13.-23. ágúst. Mótið átti að fara fram 2.-12. júlí.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.