Körfubolti

Sportið í dag: Þetta er gæi með alvöru drauma

Sindri Sverrisson skrifar

Eftir afar farsælan tíma með liði Davidson-háskólans í Bandaríkjunum fékk háskólaboltaferill Jóns Axels Guðmundssonar skjótan endi þegar úrslitakeppni A-10 riðilsins var aflýst vegna kórónuveirunnar.

Jón Axel er mikill Grindvíkingur og í Sportinu í dag spurði Kjartan Atli Kjartansson hvort að til greina hefði komið að spila með Grindavík í úrslitakeppninni hér á landi í vor. Innslagið má sjá hér að ofan. Nú hefur úrslitakeppnin verið blásin af hér líkt og í bandaríska háskólaboltanum, en það var á Jóni Axel að heyra að hann hefði frekar haldið kyrru fyrir í Bandaríkjunum þó að það hefði boðist að koma heim:

„Grindavíkurhjartað er það stórt að það kitlar ógeðslega mikið að koma heim og hjálpa þeim, og gera eins mikið og ég get til þess. Mér finnst þeir vera með nógu gott lið til að spila við hvern sem er í deildinni og þeir hafa sýnt það þegar þeir eru að spila vel, eru yfirvegaðir og vilja spila vörn af krafti. Þá eru þeir mjög gott lið. En ég veit það ekki. Ég verð að hugsa fyrst og fremst um mína framtíð. Ef ég myndi vera að koma heim til Íslands held ég að það myndi bara hamla ferlinum mínum frekar en að hjálpa mér. Ég væri þá að æfa körfubolta á Íslandi í stað þess að vera hérna með einkaþjálfaranum mínum sem veit í hverju ég þarf að vinna í. Hann er búinn að þjálfa fullt af NBA-gaurum og er enn að því, þannig að ég held að það myndi hjálpa mér meira,“ sagði Jón Axel.

Kjartan Atli og Henry Birgir Gunnarsson ræddu aðeins um Grindvíkinginn sem eins og fyrr segir stóð sig afar vel fyrir Davidson.

„Frábært að sjá svona gæja. Búinn að eiga geggjaðan háskólaferil og þetta er alvöru metnaður. „Já, auðvitað er NBA alltaf markmiðið, en ég gæti alveg sætt mig við Euroleague ef þetta fer þangað.“ Þetta er gæi með alvöru drauma og alvöru attitjúd,“ sagði Henry Birgir. Innslagið má sjá hér að ofan.


Tengdar fréttir

Jón Axel kvaddi með viðeigandi hætti

Jón Axel Guðmundsson var kvaddur með virktum eftir að hafa átt enn einn góða leikinn fyrir Davidson Wildcats í bandaríska háskólakörfuboltanum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×