Viðskipti innlent

Verðbólga mælist 3,6 prósent

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Hagstofan.
Hagstofan. VÍSIR

Verðbólga mælist nú 3,6 prósent og er um hækkun að ræða. Alls voru 14.900 einstaklingar atvinnulausir í nóvember. 

Hagstofan greindi frá því í morgun að vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í desembermánuði hækkar um 0,20% frá fyrri mánuði. Heiðrún Erika Guðmundsdóttir er deildarstjóri vísitöludeildar hjá Hagstofu Íslands.

„Það er ekki víst að fólk finni fyrir því algjörlega á augnablikinu sem hækkunin kemur en þegar þetta safnast upp yfir tíma og í fleiri neysluvörum þá fer fólk að fyrir því að geta keypt minna fyrri þær ráðstöfunartekjur sem það hefur, þannig smátt og smátt þá finnur fólk fyrir því að verðlag verður hærra,“ sagði Heiðrún Erika.

Verðbólga mælist því 3,6 prósent.

„Við tölum um 12 mánaða breytingu. Vísitala neysluverðs hefur á einu ári hækkað um 3,6 prósent og þá er talað um að verðbólgan sé 3,6 prósent. Hún er búin að vera á bilinu 3,5-3,6 núna síðustu fjóra mánuði en hún var minni í upphafi ársins 2020 þá var hún 1,7. Verðbólgan hefur aðeins farið upp á við núna þegar liðið hefur á árið.“

Breytingar á neyslu fólks

Faraldur kórónuveirunnar hafi áhrif.

„Þegar Covid kemur til sögunnar þá breytist svo mikið í samfélaginu. Bæði rýrnaði gjaldmiðillinn okkar lítillega í vor og í sumar sem hefur áhrif á allt innflutningsverðlag.“

Einnig eru ákveðnar breytingar á neyslu fólks. Það kaupi meira af mat og drykk og nýtir peningana ekki í leikhúsmiða þar sem leikhúsin eru lokuð að sögn Heiðrúnar.

„Fólk nær ekki að sinna hlutum sem það sinnti áður, það ferðast minna og annað slíkt, þannig við sjáum kannski þrýsting í þeim neysluflokkum þar sem fólk er að eyða peningunum sínum núna,“ sagði Heiðrún Erika.

Atvinnuleysi hækkar milli mánaða

Alls voru 14.900 atvinnulausir í nóvembermánuði eða 7,1 prósent af vinnuaflinu og hækkaði atvinnuleysi milli mánaða.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×