Handbolti

Allt annað en sáttur með dómarana: Eins og að spila á Balkan­skaganum fyrir tuttugu árum

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jesper Jensen byrjar vel sem þjálfari danska landsliðsins.
Jesper Jensen byrjar vel sem þjálfari danska landsliðsins. Jan Christensen/Getty

Jesper Jensen, þjálfari danska kvennalandsliðsins í handbolta, var ekki hrifinn af dómgæslunni er Króatía vann sigur á Danmörku, 25-19, í leiknum um þriðja sætið á EM.

Danska liðið hafði hrifið marga á heimavelli en liðið tapaði fyrir Evrópumeisturunum í Noregi í undanúrslitunum á föstudagskvöldið. Í gær tapaði liðið svo leiknum um bronsið og þar var dómgæslan ekki merkileg að mati Jesper.

„Þetta var fáránlegt. Ótrúlegt,“ voru fyrstu viðbrögð Jesper þegar hann var spurður út í frammistöðu dómarana í leikslok. „Þetta var eins og að spila á Balkanskaganum fyrir tuttugu árum þegar maður vissi að það yrði svindlað á manni áður en leikurinn byrjaði.“

„Við höfðum talað um gæðin á dómgæslunni væri ekki mikil en mér fannst þetta allt falla með Króötunum í dag. Hefðum við spilað okkar besta leik hefði það væntanlega dugað en fyrir tuttugu árum hefði maður ekki átt möguleika. Við fengum þennan möguleika í dag.“

Dómarateymi leiksins í gær kom frá Svartfjallalandi en þær Jelena Mitrovic og Andjelina Kazanegra dæmdu leikinn.

Jesper bætti þó við að það hafi ekki verið vegna dómaranna sem danska liðið tapaði. Danir skoruðu einungis tvö mörk síðustu tuttugu mínútur leiksins en staðan var jöfn 18-18 er tuttugu mínútur voru til leiksloka.

Þetta var fyrsta stórmót Jespers með danska liðið eftir að hafa tekið við liðinu fyrr á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×