Viðskipti innlent

KPMG kaupir CIRCULAR Solutions

Sylvía Hall skrifar
Ráðgjafarsvið KPMG og CIRCULAR Solutions.
Ráðgjafarsvið KPMG og CIRCULAR Solutions. Aðsend

KPMG hefur gengið frá kaupum á ráðgjafarfyrirtækinu CIRCULAR Solutions, sem veitir þjónustu á sviði sjálfbærni og sjálfbærra fjármála. CIRCULAR Solutions hóf starfsemi í byrjun árs 2018 og er ætlað að gera KPMG leiðandi fyrirtæki á Íslandi í ráðgjöf og þjónustu á sviði sjálfbærni.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu um kaupin, en þar kemur fram að CIRCULAR Solutions komi með framúrskarandi þekkingu og reynslu í teymi KPMG. Sjálfbærni sé nú þegar orðin mikilvægur þáttur í starfsemi fyrirtækja, sveitarfélaga og annarra opinberra aðila sem vilji vera samkeppnishæfir.

KPMG og CIRCULAR hafa til að mynda unnið að undirbúningi grænna og félagslegra skuldabréfa með sínum viðskiptavinum, sem og mótun og innleiðingu sjálfbærnistefnu, markmiðasetningu og áhættu- og mikilvægisgreiningar.

Bjarni Herrera, framkvæmdastjóri CIRCULAR, segir þetta rétta tímapunktinn fyrir umskipti í rekstrinum. Kröfurnar séu sífellt að aukast, regluverk að flækjast og umfangið fari vaxandi. Á sínum tveimur árum hafi fyrirtækið notið trausts og hjálpað stórum aðilum í átt að sjálfbærni og fram undan séu spennandi tímar.

„Við hlökkum til að halda því áfram sem hluti af öflugu teymi KPMG, með breiðari nálgun en áður og með stuðningi frá KPMG á alþjóðavísu sem setur okkur í lykilstöðu til að innleiða bestu starfshætti í vegferð Íslands til sjálfbærni.“





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×