Viðskipti innlent

Ríf­legur kaup­auki til starfs­fólks ef arð­semi er hærri en sam­keppnis­aðila

Sylvía Hall skrifar
Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gíslason er bankastjóri Arion banka. Arion banki

Náist markmið nýs kaupaukakerfis Arion banka mun starfsfólks bankans geta fengið allt að tíu prósent af föstum árslaunum sínum á næsta ári í kaupauka. Æðstu stjórnendur bankans geta fengið allt að 25 prósent kaupaukagreiðslu með sömu skilyrðum, en þó í formi hlutabréfa í bankanum.

Kjarninn greinir frá þessu á vef sínum í dag, en þar kemur meðal annars fram að umrædd hlutabréf sem stjórnendur gætu fengið í sinn hlut yrðu ekki laus til ráðstöfunar fyrr en þremur árum eftir kaupaukagreiðsluna.

Hvort kaupaukakerfið nái árangri kemur í ljós þegar ársreikningur bankans fyrir næsta ár liggur fyrir. Stefnt er að því með kaupaukakerfinu að arðsemi bankans verði hærri en vegið meðaltal helstu keppinauta, það er Íslandsbanka, Kviku og Landsbankans. Gangi það ekki eftir verður kaupaukinn ekki greiddur út samkvæmt því sem fram kemur í tilkynningu Arion til hlutabréfamarkaða sem hann er skráður á.

Stjórnendur gætu fengið milljóna kaupauka

Ljóst er að gangi þetta eftir munu stjórnendur bankans eiga von á dágóðum kaupauka. Mánaðarlaun Benedikts Gíslasonar bankastjóra voru 4,7 milljónir á síðasta ári og eru því árslaun hans 56,4 milljónir. Kaupaukagreiðslan gæti þá numið rúmlega fjórtán milljón krónum ef árslaun síðasta árs eru lögð til grundvallar.

Stefán Pétursson, fjármálastjóri bankans, er með um fjórar milljónir á mánuði og því 48 milljónir í árslaun. Kaupauki til hans myndi því nema um 12 milljónum ef tekið er mið af þeim launum.

Samkvæmt þeim launum sem Ásgeir H. Reykfjörð Gylfason fékk greidd á síðasta ári á hann einnig von á háum kaupauka, en hann var ráðinn aðstoðarbankastjóri á síðasta ári og hóf störf í september. Hann fékk greiddar 22,5 milljónir fyrir sín störf til áramóta og eru því mánaðarlaun hans að meðaltali 5,6 milljónir.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×