Viðskipti innlent

Meintur ólöglegur ágóði Samherja sagður 4,7 milljarðar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Upphæðin af meintum ólöglegum ávinningi er fengin með því að umreikna 50 þúsund tonn af hrossamakrílskvóta.
Upphæðin af meintum ólöglegum ávinningi er fengin með því að umreikna 50 þúsund tonn af hrossamakrílskvóta. Vísir/Egill

Meintur ólöglegur ágóði sem Samherji fékk af milliríkjasamningi namibískra og angólskra yfirvalda er metinn á um 4,7 milljarða íslenskra króna. Ríkisútvarpið greinir frá og hefur upp úr beiðni sem namibískur saksóknari hefur lagt fram fyrir dómstól í Namibíu.

Fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins að í beiðninni sé óskað eftir kyrrsetningu á eignum „fjölmargra félaga“ vegna rannsóknar á þessum hluta Samherjamálsins svokallaða. Af þessum félögum séu sex á vegum Samherja.

Þá sé umrædd upphæð, 548 milljónir Namibíudollara eða 4,7 milljarðar íslenskra króna, fengin með því að umreikna 50 þúsund tonn af hrossamakrílskvóta yfir í markaðsvirði þess tíma á hrossamakríl. Samherji er sagður hafa fengið 50 þúsund tonninn út úr samningnum.

Þá hefur Ríkisútvarpið upp úr eiðsvarinni yfirlýsingu Mörthu Imalwa saksóknara að Sacky Shanghala fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu hafi fengið jafnvirði 217 milljóna króna í greiðslur frá félögum tengdum Samherja. Bernard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hafi fengið jafnvirði um 100 milljóna króna, „en ekki kemur fram hvort það fé hafi allt komið frá Samherja,“ segir í frétt Ríkisútvarpsins. 

Alls nemi greiðslur frá félögum tengdum Samherja til fimm manna sem ákærðir eru í málinu í Namibíu um 1,46 milljarði íslenskra króna. Fjallað er um yfirlýsingu Imalwa á forsíðu dagblaðsins The Namibian sem kemur út á morgun. 

Rúmt ár er síðan ásakanir komu fram um að félög Samherja hefðu greitt embættismönnum í Namibíu mútur til að fá aðgang að aflaheimildum og komið fjármunum undan skatti í vetur. Samherji hafnar slíkum ásökunum alfarið.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×