Fram kemur í frétt Ríkisútvarpsins að í beiðninni sé óskað eftir kyrrsetningu á eignum „fjölmargra félaga“ vegna rannsóknar á þessum hluta Samherjamálsins svokallaða. Af þessum félögum séu sex á vegum Samherja.
Þá sé umrædd upphæð, 548 milljónir Namibíudollara eða 4,7 milljarðar íslenskra króna, fengin með því að umreikna 50 þúsund tonn af hrossamakrílskvóta yfir í markaðsvirði þess tíma á hrossamakríl. Samherji er sagður hafa fengið 50 þúsund tonninn út úr samningnum.
Þá hefur Ríkisútvarpið upp úr eiðsvarinni yfirlýsingu Mörthu Imalwa saksóknara að Sacky Shanghala fyrrverandi dómsmálaráðherra Namibíu hafi fengið jafnvirði 217 milljóna króna í greiðslur frá félögum tengdum Samherja. Bernard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hafi fengið jafnvirði um 100 milljóna króna, „en ekki kemur fram hvort það fé hafi allt komið frá Samherja,“ segir í frétt Ríkisútvarpsins.
Alls nemi greiðslur frá félögum tengdum Samherja til fimm manna sem ákærðir eru í málinu í Namibíu um 1,46 milljarði íslenskra króna. Fjallað er um yfirlýsingu Imalwa á forsíðu dagblaðsins The Namibian sem kemur út á morgun.
Headlines on tomorrow's front page: pic.twitter.com/QmRcVPCFAn
— The Namibian (@TheNamibian) November 30, 2020
Rúmt ár er síðan ásakanir komu fram um að félög Samherja hefðu greitt embættismönnum í Namibíu mútur til að fá aðgang að aflaheimildum og komið fjármunum undan skatti í vetur. Samherji hafnar slíkum ásökunum alfarið.