Viðskipti innlent

Rukka ekki áskrifendur í desember en óljóst með korthafa

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hlaupabrettin í World Class í Laugardal en stöðin er betur þekkt sem Laugar.
Hlaupabrettin í World Class í Laugardal en stöðin er betur þekkt sem Laugar. Vísir/Vilhelm

World Class hefur ákveðið að rukka ekki áskrifendur sína í desember eftir að hafa sent áskrifsendum sínum reikning fyrir tveimur vikum í nóvember. Markaðs- og samfélagsmiðlastjóri World Class vill ekki svara því hvernig brugðist sé við gagnvart þeim sem eigi árskort eða önnur tímabundin kort hjá líkamsræktarstöðinni.

Líkamsræktarstöðvar hafa verið lokaðar frá 31. október og ekki ljóst hvenær þær opna á nýjan leik. Stöðvarnar fengu grænt ljós á að opna fyrir hóptíma í tuttugu manna samkomubanni en fæstar nýttu sér það. World Class hafði þó opið í tíu daga eða þar til aðgerðir voru hertar um mánaðamótin.

Næst má reikna með afléttingu takmarkana hér á landi 2. desember en hve miklar þær verða er óljóst. Sóttvarnalæknir hefur talað fyrir því að fara verið hægt í afléttingar.

Birgitta Líf Björnsdóttir er markaðs- og samfélagsmiðlarstjóri World Class.@birgittalif

Í tilkynningu á vef World Class á mánudag segir að World Class hafi sent áskrifendum reikning fyrir tveimur vikum í nóvember þegar útlit var fyrir að aðeins yrði lokað í tvær vikur.

„Þar sem ekki var hægt að opna að 2 vikum liðnum þá verða ekki sendir út reikningar fyrir desember,“ sagði í tilkynningunni.

Stór hluti þeirra sem stunda líkamsrækt hjá World Class, sem telja um 45 þúsund manns í heildina, eru með árskort eða skemmri kort til nokkurra mánaða. Fréttastofa sendi Birgittu Líf Björnsdóttur, markaðs- og samfélagsstjóra World Class, fyrirspurn um hvernig brugðist verði við gagnvart handhöfum slíkra korta. Sömuleiðis hve margir korthafar væru hjá World Class.

„Sæll og takk fyrir að hafa samband. Allar nauðsynlegar upplýsingar birtast á heimasíðunni okkar,“ sagði Birgitta og birti broskarl með svari sínu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×