Skoðun

Verkafólk kaupir aðgang að íslenskum auðlindum af Norðmönnum

Arndís Kristjánsdóttir skrifar

Nú liggur fyrir að lífeyrissjóðurinn Gildi hefur fjárfest fyrir þrjá milljarða króna í Icelandic Salmon AS, norsku móðurfélagi Arnarlax. Þar með renna til Noregs beinharðir þrír milljarðar sem íslenskt verkafólk, meðal annars félagsmenn Eflingar, hafa sparað sér til elliáranna af launum sem unnið hefur verið fyrir hörðum höndum. 

Arnarlax stundar laxeldi í opnum sjókvíum á Vestfjörðum með frjóan eldislax af norskum uppruna. Frá eldinu streymir úrgangur óhreinsaður beint í sjóinn og safnast upp með tilheyrandi hættu fyrir lífríkið. Reglulega er hellt í opnar kvíarnar eitri til að drepa laxalús sem herjar á eldisfiskana, eitur sem strádrepur aðrar lífverur svo sem rækjur og krabbadýr á svæðinu. Og reglulega sleppa eldisfiskar sem rannsóknir hafa sýnt að útrýma villtum stofnum laxa ef innblöndunin stendur um lengri tíma í nægjanlega miklum mæli. Fjöregg komandi kynslóða, íslensk náttúra, er skiptimyntin sem látin er liggja á milli hluta í þessu braski.

Verðmat hins norska móðurfélags Arnarlax var 50 milljarða fyrir innspýtingu íslenska verkafólksins. Á bak við það eru fyrst og fremst eldisleyfi Arnarlax upp á 25.000 tonn í vestfirskum sjó. Verðmat íslensku leyfanna er því ekki fjarri nýlegum kaupum norska sjókvíaeldisrisans Salmar AS, aðaleiganda Icelandic Salmon AS, á norskum leyfum af norska ríkinu þar sem greiddir voru 30 milljarðar fyrir 8.000 tonna leyfi. Þeir 30 milljarðar runnu í norska ríkiskassann, sameign norska verkalýðsins og annarra þar í landi. 

Á Íslandi er ekkert greitt til ríkisins fyrir úthlutuð eldisleyfi, eldiskvótinn er ókeypis. Íslenskt verkafólk hefur því með sparnaði sínum greitt hinum norsku nýlenduherrum fyrir hlutdeild í íslenskum leyfum sem veitt voru ókeypis. Á sama tíma greiðir norski eigandinn norska ríkinu fyrir viðbótarleyfi í Noregi.

Hversu öfugsnúinn getur veruleikinn verið?

Höfundur er lögfræðingur og félagi í Íslenska náttúrulífssjóðnum - The Icelandic Wildlife Fund.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×