Viðskipti innlent

Costco dæmt til að greiða sjö milljónir

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Verslun Costco á Íslandi.
Verslun Costco á Íslandi. Vísir/hanna

Costco á Íslandi var í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun dæmt til að greiða Samtökum verslunar og þjónustu (SVÞ) 7,3 milljónir króna auk dráttarvaxta vegna vangoldinna félagsgjalda.

SVÞ höfðaði málið gegn Costco í apríl á þessu ári. Samtökin kröfðust þess að Costco greiddi vangoldin félagsgjöld frá nóvember 2018 til nóvember 2019, bæði til sín og Samtaka atvinnulífsins (SA). Málinu hafði áður verið vísað frá dómi vegna óljósrar kröfu SVÞ.

Fram kemur í dómi að Costco hafi sótt um aðild að samtökunum í ágúst 2016 en aðild að SVÞ felur jafnframt í sér aðild að Samtökum atvinnulífsins.

Costco hélt því fram fyrir dómi að fyrirtækið hafi aldrei verið upplýst um að umsókn fæli í sér ótímabundna aðild að samtökunum og þá hafi ekkert gefið til kynna að greiða ætti félagsgjöld. Fyrstu reikningar fyrir félagsgjöld að samtökunum hafi numið á bilinu 8.250 til 13 þúsund krónum en þeir hafi hins vegar margfaldast án útskýringa í lok árs 2018, farið úr áðurnefndum upphæðum og upp í rúmar þrjár milljónir króna.

Dómurinn leit svo á að með samþykki á umsókn Costco um aðild að félögunum hafi komist á samningur með þeim. Þá liggi fyrir að ástæða þess að félagsgjöldin voru svo lág í fyrstu hafi verið sú að SVÞ hafði ekki upplýsingar um launagreiðslur Costco. Þær hafi svo fengist og reikningarnir því hækkað. Þá hefðu fyrstu reikningarnir, sem Costco greiddi vandkvæðalaust, jafnframt átt að gefa Costco til kynna að aðild að samtökunum væri ekki ókeypis.

Costco var að endingu dæmt til að greiða SVÞ umrædd félagsgjöld, alls að upphæð 7,3 milljónum króna, auk dráttarvaxta. Þá var Costco jafnframt gert að greiða SVÞ 750 þúsund krónur í málskostnað.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×