Körfubolti

Benedikt: Stjörnumenn versla útlendinga í Gucci á meðan hin liðin eru í H&M

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnar Guðjónsson kann að finna útlendinga en hér er þjálfari Stjörnunnar að ræða málin við aðstoðarþjálfara sína Inga Þór Steinþórsson og Danielle Rodriguez.
Arnar Guðjónsson kann að finna útlendinga en hér er þjálfari Stjörnunnar að ræða málin við aðstoðarþjálfara sína Inga Þór Steinþórsson og Danielle Rodriguez. Vísir/Elín Björg

Benedikt Guðmundsson hrósaði Stjörnumönnum í Domino´s Körfuboltakvöldi fyrir að hafa náð að semja við Slóvenann Mirza Sarajlija fyrir þetta tímabil.

Stjörnumönnum er spáð Íslandsmeistaratitlinum af flestum og þar á meðal bæði Vísi og Domino´s Körfuboltakvöldi.

Í kynningarþætti Domino´s Körfuboltakvölds barst umræðan að erlendu leikmönnum Stjörnuliðsins og þá sérstaklega Slóvenanum Mirza Sarajlija.

Mirza Sarajlija skoraði 22 stig á tæpum 19 mínútum í leik Stjörnunnar í Meistarakeppni KKÍ þar sem hann setti niður 7 af 11 þriggja stiga skotum sínum.

Nú verður fróðlegt að sjá hvort Mirza Sarajlija sýni meira af því í sama í fyrsta deildarleiknum í kvöld þegar Stjarnan heimsækir Valsmenn á Hlíðarenda.

Leikurinn Vals og Stjörnunnar hefst klukkan 20.00 og verður í beinni á Stöð 2 Sport sem strax á eftir honum verður síðan Domino´s Körfuboltakvöld en það hefst klukkan 22.00.

Benedikt Guðmundsson, sérfræðingur í Domino´s Körfuboltakvöldi, ræddi útlendingamál Stjörnunnar en hann segir að gæði Mirza Sarajlija séu dæmi um það að Stjörnumenn séu ekki að versla sér leikmenn á sömu stöðum og hin liðin.

„Sá var flottur. Við erum búnir að sjá Mirza núna, Tomsick í fyrra og Antti þar á undan. Þeir ná alltaf í príma skyttur þarna,“ sagði Benedikt Guðmundsson í Domino´s Körfuboltakvöldi. Hann er þar að tala um króatíska Bandaríkjamanninn Nikolas Tomsick og Finnan frábæra Antti Kanervo.

„Stjarnan er þannig klúbbur að þegar er verið að leita að útlendingum þá er bara farið í Gucci búðirnar, Versace eða hvað sem þetta heitir allt og svo eru önnur lið bara í H&M og Söru. Þegar þú ert með gott budget þá eru líkur á því að þú náir í góða menn,“ sagði Benedikt en það má sjá hvað hann sagði hér fyrir neðan.

Klippa: Domino´s Körfuboltakvöld: Benedikt Guðmundsson um útlendingamál Stjörnunnar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×